Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
banner
   mið 13. september 2023 09:46
Elvar Geir Magnússon
Íslandsvinurinn Lima hættur eftir lengsta landsliðsferil sögunnar
Ildefons Lima í leik gegn Íslandi.
Ildefons Lima í leik gegn Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lima og Hannes Þór Halldórsson.
Lima og Hannes Þór Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir 26 ár og 137 leiki hefur Ildefons Lima spilað sinn síðasta landsleik fyrir Andorra. Hann hefur átt lengsta landsliðsferil í sögu fótboltans.

Hann er 43 ára og lék sinn fyrsta landsleik 17 ára gamall í 4-1 tapi gegn Eistlandi 1997. Hann skoraði markið í leiknum en þetta var aðeins annar landsleikur þjóðar hans.

Á þriðjudaginn byrjaði hann í sínum síðasta landsleik, 3-0 tapi gegn Sviss. Hann var tekinn af velli eftir 23 mínútur og fékk dynjandi lófaklapp frá stuðningsmönnum beggja liða.

Inn í hans stað kom Ricard Fernandez Betriu, leikmaður sem fæddist tveimur árum eftir að Lima lék sinn fyrsta landsleik.

Aðeins 79 þúsund búa í Andorra og Lima hefur tapað yfir 100 landsleikjum. Andorra hefur aðeins unnið sjö mótsleiki, sá síðasti var 2-0 gegn Liechtenstein á síðasta ári.

Lima er miðvörður en hann skoraði ellefu landsliðsmörk og er markahæstur í sögu þjóðarinnar. Á leikmannaferlinum hefur hann spilað með Espanyol, Las Palmas og Rayo Vallecano á Spáni og er núna hjá FC Andorra, félagi sem Gerard Pique fyrrum varnarmaður Spánar á.

Spurður hvort hann hefði áhuga á að ljúka ferlinum á Íslandi
Lima hefur nokkrum sinnum komið hingað til Íslands, síðast með Inter Escaldes í fyrra þegar liðið lék gegn Víkingi í umspilinu fyrir forkeppni Meistaradeildarinnar.

Þegar Ísland og Andorra voru saman í undankeppni EM fyrir nokkrum árum var Lima duglegur að svara Íslendingum á samskiptamiðlinum sem þá hét Twitter. Þar sagði hann meðal annars frá því að Birkir Már Sævarsson aðstoði sig með góðgerðarstarfsemi sína.

Á fréttamannafundi á Laugardalsvelli 2019 var Lima spurður út í það hvort hann hefði áhuga á að ljúka ferlinum á Íslandi?

„Ég er kannski á Íslandi núna en líf mitt er í Andorra, það hefði verið möguleiki á að spila hér ef ég væri yngri en Ísland er ekki fyrir mig eins og staðan er núna. Ísland er mjög vinalegt land, að því leyti eru Ísland og Andorra lík en á morgun er fótboltaleikur sem ég þarf að hugsa um og við viljum vinna," svaraði Lima.
Athugasemdir
banner
banner
banner