Paul Pogba, franskur miðjumaður Juventus, er í klandri eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Hann mældist með alltof mikið testósterón og gæti átt yfir höfði sér langt bann frá fótbolta.
Eftir stutta rannsókn er komið í ljós að Pogba keypti töflur sem innihalda ólöglegt magn af testósteróni þegar hann var í Bandaríkjunum. Hann á vin þar í landi sem er læknir og ráðlagði honum að taka þessar töflur.
Juventus getur því ekki talist ábyrgt fyrir þessum mistökum Pogba og fer ítalski miðillinn La Gazzetta dello Sport yfir möguleika Juventus í stöðunni. Einn þessara möguleika, og sá sem er talinn líklegastur af mörgum, er að reyna að rifta samningi Pogba vegna samningsbrots.
Þetta gæti verið gott sparnaðarráð fyrir Juve þar sem Pogba er meðal launahæstu leikmanna félagsins og hefur nánast eingöngu verið meiddur frá komu sinni til félagsins. Hann er samningsbundinn Juve til 2026.
Pogba er 30 ára gamall og var eitt sinn talinn til bestu og efnilegustu miðjumanna fótboltaheimsins, en er það ekki lengur eftir neikvæða dvöl hjá Manchester United og tíð meiðsli.