
Gary Lineker hafði samband við stjórn Leicester City í sumar og mælti með nýjum þjálfara fyrir karlalið félagsins.
Leicester fór í þjálfaraleit í sumar eftir að hafa fallið úr ensku úrvalsdeildinni.
Lineker, sem er Leicester goðsögn og fyrrum landsliðsmaður Englands, sagði stjórninni frá sínum kosti í starfið en hann fékk ekki ósk sína uppfyllta.
„Ég hafði samband við félagið og sagði þeim frá þeirri hugmynd að ná í Emmu Hayes frá Chelsea. Hún er algjörlega frábær. Ímyndaðu þér líka að vera fyrsta stóra félagið til að ráða konu sem þjálfara karlaliðsins. Það hefði verið risastórt en þeir svöruðu mér og sögðu að skrefið væri örugglega of stórt á þessum tímapunkti," sagði Lineker.
Hayes hefur náð mögnuðum árangri með kvennalið Chelsea. Hún hefur stýrt liðinu sex sinnum til sigurs í ensku úrvalsdeildinni.
Leicester réði á endanum Enzo Maresca, aðstoðarmann Pep Guardiola, og hann hefur farið vel af stað.
Athugasemdir