Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   mið 13. september 2023 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Postecoglou: Fæstir vilja spila gegn Romero á æfingum
Mynd: Tottenham Hotspur
Mynd: Tottenham

Tottenham Hotspur hefur farið vel af stað undir stjórn Ange Postecoglou að undanskildu tapi gegn Fulham í enska deildabikarnum.


Tottenham er með tíu stig eftir fjórar umferðir í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið að spila glimrandi flottan fótbolta.

Núna er landsleikjahlé í gangi og svaraði Postecoglou spurningum um nokkra leikmenn hjá sér. Þar á meðal voru Cristian 'Cuti' Romero, Yves Bissouma og James Maddison.

„Ég myndi ekki vilja spila gegn Cuti. Fæstir vilja spila gegn honum á æfingum útaf því að hann er alvöru keppnismaður. Þetta er eitt af því sem ég elska við hann, hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur og leggur allt í sölurnar hvort sem hann er á æfingu eða að spila alvöru leik," sagði Postecoglou um argentínska miðvörðinn Romero sem varð heimsmeistari með Argentínu í fyrra.

Hann sneri sér svo að miðjumanninum Yves Bissouma sem er landsliðsmaður Malí og kom við sögu í 28 leikjum á sínu fyrsta tímabili hjá Tottenham.

„Ég greip í hann og sagði honum að hann gæti orðið leiðtogi í þessum hópi miðað við hvernig hann var búinn að standa sig á fyrstu þremur eða fjórum æfingunum. Hann mætti svo seint á næstu æfingu og ég sagði honum að leiðtogar verða að mæta tímanlega. Hann hefur verið góður síðan þá."

Að lokum var komið að einum af helstu stjörnuleikmönnum liðsins, James Maddison sem var keyptur frá Leicester City í sumar.

„Stór partur af stuðningnum við mig í þessu starfi er útaf þeirri staðreynd að við kræktum í James snemma í glugganum, það hefur verið frábært fyrir mig. Það voru fleiri félög sem vildu hann en stjórnendurnir hlustuðu á mig og unnu kapphlaupið."

Postecoglou er 58 ára gamall Ástrali sem starfaði síðast við stjórnvölinn hjá Celtic við góðan orðstír, en fyrir það var hann aðalþjálfari Yokohama F. Marinos í Japan og ástralska landsliðsins.


Athugasemdir
banner
banner