Kingsley Coman, liðsfélagi Paul Pogba í franska landsliðinu, segist styðja við bakið á vini sínum.
Pogba er í klandri eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Hann mældist með alltof mikið testósterón og gæti átt yfir höfði sér langt bann frá fótbolta.
Eftir stutta rannsókn er komið í ljós að Pogba keypti töflur sem innihalda ólöglegt magn af testósteróni þegar hann var í Bandaríkjunum. Hann á vin þar í landi sem er læknir og ráðlagði honum að taka þessar töflur.
Coman var spurður út í Pogba eftir landsleik Frakka gegn Þjóðverjum í gær og sagði þá: „Við styðjum allir við bakið á Paul. Hann er góður vinur og hluti af þessari fjölskyldu."
„Ef eitthvað gerðist, þá vitum við það alveg að hann gerði það óvart. Við stöndum með honum."
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, tók undir með Coman og segist styðja við bakið á miðjumanninum.
Pogba er 30 ára gamall og var eitt sinn talinn til bestu og efnilegustu miðjumanna fótboltaheimsins, en er það ekki lengur eftir neikvæða dvöl hjá Manchester United og tíð meiðsli.
Athugasemdir