Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   mið 13. september 2023 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Undankeppni HM: Dramatísk sigurmörk hjá Marquinhos og Rondón
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Það fóru fimm leikir fram í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM í gærkvöldi og í nótt.


Ekvador 2 - 1 Úrúgvæ
0-1 Agustin Canobbio ('38)
1-1 Felix Torres ('45)
1-1 Enner Valencia, misnotað víti ('50)
2-1 Felix Torres ('61)

Argentína byrjaði á sigri gegn Bólivíu og svo átti Ekvador heimaleik við Úrúgvæ sem var mikil spenna í, þar sem fyrri hálfleikurinn var jafn og staðan 1-1 þegar lið gengu til búningsklefa.

Ekvador vann leikinn að lokum 2-1 þökk sé tvennu frá varnarmanninum Felix Torres, en fyrra markið skoraði hann eftir stoðsendingu frá Moises Caicedo, rándýrum miðjumanni Chelsea. 

Enner Valencia, fyrrum leikmaður West Ham og Everton, klúðraði vítaspyrnu fyrir Ekvador sem var talsvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik og verðskuldaði sigurinn. Pervis Estupinan, vinstri bakvörður Brighton, var einnig í byrjunarliðinu hjá Ekvador. 

Þá voru Federico Valverde, Manuel Ugarte og Darwin Nunez í byrjunarliði Úrúgvæ en tókst ekki að koma í veg fyrir tap. Facundo Pellistri, ungstirni Manchester United, kom einnig við sögu í tapinu.

Bæði lið eru með einn sigur og eitt tap eftir tvær fyrstu umferðir undankeppninnar, en Úrúgvæ er með þrjú stig á meðan Ekvador er stigalaust.

Það er vegna þess að Ekvador hóf keppnina með þrjú mínusstig fyrir að nota falsað fæðingavottorð fyrir Byron Castillo í síðustu undankeppni. Það var skandall þegar í ljós kom að Castillo var í raun fæddur í Kólumbíu. Hann má spila fyrir landslið Ekvador, en ekki á fölsuðu fæðingavottorði.

Til gamans má geta að hinn bráðefnilegi Kendry Paez, sem er framtíðarleikmaður Chelsea, spilaði sinn fyrsta A-landsleik í nótt. Hann var í byrjunarliði Ekvador og lagði upp sigurmarkið.

Perú 0 - 1 Brasilía
0-1 Marquinhos ('90)

Brasilía er eina liðið fyrir utan Argentínu til að vera með fullt hús stiga eftir tvo fyrstu leikina, en útileikur liðsins gegn Perú var gríðarlega erfiður.

Perú gaf fá færi á sér og átti Brasilía aðeins þrjár marktilraunir sem hæfðu rammann í leiknum og skoraði Marquinhos úr einni þeirra á 90. mínútu, með skalla eftir hornspyrnu frá Neymar.

Brasilía er þá komin með sex stig eftir stórsigur gegn Bólivíu í fyrstu umferð, en Perú er með eitt stig.

Síle 0 - 0 Kólumbía

Venesúela 1 - 0 Paragvæ
1-0 Salomon Rondon ('93, víti)

Síle og Kólumbía gerðu svo markalaust jafntefli í hörkuslag þar sem Luis Diaz var í byrjunarliði Kólumbíu á meðan Luis Sinisterra og Davinson Sanchez komu inn af bekknum og Juan Cuadrado var ónotaður varamaður.

Kempurnar Arturo Vidal og Alexis Sanchez voru í byrjunarliði heimamanna í Síle ásamt Ben Brereton Diaz en tókst ekki að setja mark í leikinn.

Kólumbía er með fjögur stig eftir þetta jafntefli á meðan Síle situr eftir með eitt stig, alveg eins og Paragvæ sem tapaði óvænt gegn Venesúela.

Salomon Rondon, fyrrum leikmaður West Brom, Newcastle og Everton í enska boltanum, skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 93. mínútu.

Viðureignin var fjörug þar sem bæði lið fengu góð tækifæri til að skora en nýttu ekki. Niðurstaðan reyndist 1-0 sigur Venesúela sem er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. 

Miguel Almiron, leikmaður Newcastle, spilaði næstum allan leikinn í tapliði Paragvæ.

Peruvian shamans doing a ritual to neutralize Neymar and Brazil
byu/Niubai insoccer

Athugasemdir
banner
banner