Leið Íslands í átt að EM 2016 í Frakklandi heldur áfram í kvöld þegar strákarnir okkar fá bronslið Hollands frá HM 2014 í heimsókn á Laugardalsvöll.
Ísland hefur byrjað undankeppnina frábærlega með tveimur 3-0 sigrum gegn Tyrklandi og Lettlandi, en það má klárlega segja að stærsta prófraunin til þessa mæti liðinu í kvöld.
Síðast voru liðin saman í riðli í undankeppni HM 2010, þar sem Ísland tapaði 2-0 í Hollandi og 2-1 á Laugardalsvelli og endaði á botni síns riðils með einungis fimm stig. Nú er öldin heldur betur önnur og íslenska landsliðið hefur aldrei verið betra.
Það þykir kannski full kröfuhart að ætla að heimta þrjú stig gegn sterku liði eins og Hollandi, við erum jú eftir allt saman bara litla Ísland. En ég sé enga ástæðu fyrir því að strákarnir okkar geti ekki borið sigur úr bítum. Þeir eru á bullandi siglingu og óeining ríkir innan hollenska liðsins, sem hefur ekki byrjað undankeppnina neitt sérstaklega sannfærandi.
Íslenska landsliðið er það sterkt í dag, og hefur tekið það gríðarlegum framförum á undanförnum árum, að manni finnst þessir mögnuðu strákar geta unnið hvaða lið sem er á góðum degi. Þeir sem óttuðust að síðasta undankeppni hefði verið einhvers konar „one off“ hafa heldur betur fengið að sjá að svo er alls ekki og stígandi virðist vera í spilamennsku Íslands.
Ef allt liðið á toppleik, líkt og á móti Tyrklandi, sem við létum nánast líta út eins og áhugamannalið, þá getur svo sannarlega allt gerst. Pressan er klárlega öll á Hollendingum, sem einfaldlega verða að vinna þennan leik, á meðan stig eða þrjú væru í raun bara kærkominn bónus fyrir Íslendinga.
En íslenska þjóðin má alveg ætlast til þess að strákarnir nái góðum úrslitum. Þeir hafa allt til brunns að bera, leikgleðin er í hámarki og sjálfstraustið með. Ef Íslandi tekst að ná í sigur er liðið búið að stíga gríðarlega stórt skref í átt að lokamarkmiðinu – sínu fyrsta stórmóti á EM 2016 í Frakklandi.
Ég tel fulla ástæðu til bjartsýni. Það þýðir ekkert að hengja haus ef svo fer að liðið tapi, en helsti punkturinn með þessari grein er kannski þakklæti. Það eru ótrúleg forréttindi að geta farið inn í leik gegn stórliði eins og Hollandi með það hugarfar að við getum vel unnið þá. Við erum kannski ennþá litla Ísland, en við höfum aldrei verið betri í fótbolta.
Áfram Ísland!
Athugasemdir