Kristall Máni Ingason hefur spilað vel að undanförnu með liði sínu SönderjyskE í Danmörku. Hann var á skotskónum um liðna helgi þegar liðið vann þá toppliðið í AGF.
„Ég er sáttur að ég sé byrjaður að ná að spila leiki eftir mikið af meiðslum. Ég er kominn í mína upprunalegu stöðu og það er ekki verra að mörkin séu að fylgja," segir Kristall við Fótbolta.net. Hans upprunalega staða er sem fremsti maður á miðjunni. Kristall hefur skorað fjögur mörk í ellefu leikjum í deildinni og lagt upp eitt.
Kristall missti út nokkra mánuði á síðasta tímabili eftir að hafa fengið brjósklos. „Þetta kom upp í byrjun tímabilsins í fyrra og ég spilaði ekkert í fimm mánuði. Ég reyndi að koma mér inn í þetta aftur seinni hlutann til að reyna hjálpa liðinu að halda sér uppi."
SönderjyskE hefur komið á óvart í dönsku deildinni eftir að hafa bjargað sér frá falli á síðasta tímabili. Liðið situr í fimmta sætinu eftir fimmtán umferðir og hafa tekið ellefu stig úr síðustu fimm leikjum.
„Við erum búnir að vera flottir á tímabilinu, erum að spila vel og ná í úrslit og þá eru menn auðvitað ánægðir með það."
Hvernig var að vinna AGF?
„Sigurinn gegn AGF var flottur, gott að ná í þrjú stig og kemur okkur nær markmiðum okkar. Markið mitt var gott volley (viðstöðulaust skot á lofti) í hornið. Ég myndi segja að sigurlíkurnar fyrir leikinn hafi verið nokkuð góðar þrátt fyrir að þeir höfðu ekki tapað í tólf leikjum í röð. Við erum bara með það gott lið að við getum unnið hvern sem er í þessari deild."
Hjá SönderjyskE spilar Kristall með landsliðsmanninum Daníel Leó Grétarssyni og Rúnar Þór Sigurgeirsson var fenginn til liðsins í sumar.
„Það að vera með Danna í liði er bara vel næs, það er hægt að kíkja á hann og fjölskylduna ef maður er ekki fastur í Fortnite. Mér finnst Danni jafn góður sem vinstri miðvörður og bakvörður - hann er þrítugur reynslubolti sem leysir það sem þú biður hann um að gera."
„Rúnar kom vel inn í hlutina hjá okkur og þetta leit mjög vel út með Danna í vinstri miðverði og Rúnar í vinstri bakverði, en því miður lenti hann í þessum ömurlegu meiðslum. Þótt það sé eitthvað í hann þá veit ég að menn bíða spenntir eftir því að fá hann út á völl."
Kristall var orðaður við gríska félagið Aris Thessaloniki í sumar. Var hann nálægt því að fara frá Danmörku í sumar?
„Ég veit í raun ekkert rosalega mikið um þennan áhuga. Ég fékk ekkert til mín, fór ekki svo langt. Þannig nei, ég var ekki nálægt því að fara."
Að lokum, hvað er svo framundan hjá HúbbaBúbba?
„Næst á dagskrá þar er jólalag. Svo þarf bara að spyrja aðalgæjann í bandinu, Eyþór Wöhler, út í framhaldið. Ég er bara einbeittur á að spila vel hérna í Danmörku," segir Kristall.
Athugasemdir


