banner
   þri 14. janúar 2020 19:40
Ívan Guðjón Baldursson
Ian Wright: Ings getur fetað í fótspor Schillaci og Forlan
Mynd: Getty Images
Danny Ings hefur verið í miklu stuði með Southampton í vetur og er búinn að skora 13 mörk í síðustu 16 deildarleikjum.

Ian Wright, fyrrum leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, vill sjá hann spila undir stjórn Gareth Southgate og telur hann geta gert góða hluti á EM næsta sumar.

„Ings er að gera frábæra hluti, hann er að skora mikið af mörkum upp úr þurru," sagði Wright í útvarpsþætti á BBC Radio 5.

„Ég vona að hann haldi áfram að spila vel, hann á allt gott skilið eftir öll þessi erfiðu meiðsli sem hann hefur þurft að ganga í gegnum.

„Það er mikilvægt að skoða hvernig hann skorar - hann er að taka frábær hlaup og skora úr hálffærum. Ef hann heldur svona áfram þá getur hann gert frábært mót næsta sumar eins og Toto Schillaci (HM 1990) og Diego Forlan (HM 2010)."


Ings er 27 ára gamall og á aðeins einn A-landsleik að baki fyrir England. Hann þótti gríðarlega öflugur og var fenginn til Liverpool en slæm hnémeiðsli og erfið samkeppni gerðu út um vonir hans að vinna sér inn byrjunarliðssæti.

Það er þó ekki auðvelt að komast inn í enska landsliðshópinn þar sem Harry Kane, Jamie Vardy, Marcus Rashford og Tammy Abraham eru taldir vera ofar í goggunarröðinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner