Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   þri 14. janúar 2025 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
England: Sels með stórleik til að stöðva Liverpool
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Nott. Forest 1 - 1 Liverpool
1-0 Chris Wood ('8 )
1-1 Diogo Jota ('66 )

Nottingham Forest og Liverpool áttust við í toppslag enska boltans í kvöld og úr varð gríðarlega skemmtileg viðureign, þar sem heimamenn í Nottingham voru búnir að taka forystuna eftir átta mínútna leik.

Chris Wood skoraði markið eftir frábæra stungusendingu frá Anthony Elanga en varnarleikur Liverpool var ekki upp á marga fiska í markinu. Wood kláraði færið sitt vel og er kominn með 13 mörk á deildartímabilinu.

Liverpool átti lítið um svör í fyrri hálfleiknum þar sem varnarleikur Forest var ótrúlega öflugur. Liverpool komst í fínar stöður og átti nokkrar marktilraunir en engin þeirra hæfði markrammann, á meðan heimamenn í liði Forest voru ávalt hættulegir þegar þeir beittu sínum skyndisóknum.

Liverpool skipti um gír í gríðarlega fjörugum síðari hálfleik þar sem varnarmenn Forest fórnuðu sér í hvert skotið fætur öðru. Boltarnir sem komust framhjá varnarmúrnum mikla enduðu hjá Matz Sels sem átti stórleik á milli stanga Forest og varði þrisvar eða fjórum sinnum meistaralega í leiknum.

Liverpool sótti án afláts og tókst að skapa afar góð færi en það var Diogo Jota sem skoraði jöfnunarmark leiksins nokkrum sekúndum eftir að hafa komið inná. Arne Slot skipti Kostas Tsimikas og Diogo Jota inn á 66. mínútu og átti fyrsta snertingin hjá þeim báðum eftir að skila marki. Tsimikas tók hornspyrnu sem rataði á kollinn á Jota sem skallaði inn af stuttu færi eftir að varnarmaður Forest missti af boltanum.

Lokatölur urðu 1-1 þrátt fyrir mikinn sóknarþunga og virkilega góð færi hjá Liverpool en varnarmenn Forest og sérstaklega markvörðurinn eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa ekki fengið fleiri mörk á sig.

Liverpool er áfram á toppi úrvalsdeildarinnar, með 47 stig eftir 20 umferðir. Forest er í öðru sæti með 41 stig en getur misst það niður til Arsenal þegar lærisveinar Mikel Arteta taka á móti Tottenham í hatrömmum Norður-Lundúnaslag annað kvöld.

Liverpool hafði unnið þrjá deildarleiki í röð fyrir jafntefli kvöldsins en Forest var á enn betra skriði með sex sigra í röð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner