Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 14. apríl 2020 23:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikur í uppáhaldi: Man Utd 2 - 0 Arsenal
Elvar Geir Magnússon
Mike Riley hafði nóg að gera.
Mike Riley hafði nóg að gera.
Mynd: Getty Images
Wayne Rooney og Patrick Vieira.
Wayne Rooney og Patrick Vieira.
Mynd: Getty Images
Ruud van Nistelrooy.
Ruud van Nistelrooy.
Mynd: Getty Images
Í Covid ástandinu hefur verið vinsælt að rifja upp góðar minningar úr fótbolta með því að skrifa um leik sem er í uppáhaldi. Í síðustu viku birtist pisill frá Guðmundi Aðalsteini þar sem hann rifjaði upp leik sem hann gleymir seint. Ég tek nú við keflinu.

Ég ætla að halda til 24. október árið 2004. Staðurinn er Old Trafford í Manchester og leikurinn sem fram fór varð sögufrægari en ég gerði mér grein fyrir á deginum sem ég var meðal áhorfenda.

Ferðin sjálf í heild sinni, sem ég fór í með Hjalta vini mínum, var mjög eftirminnileg. Ég var nítján ára gamall og það sem á daga okkar dreif var ein flugeldasýning. En leyfum fótboltanum að njóta sín!

Manchester United sýndi þennan dag að magnað lið Arsenal væri ekki ósigrandi eftir allt saman. United kom í veg fyrir að Arsene Wenger og lærisveinar næðu heilum 50 leikjum í röð án þess að bíða ósigur.

Rauðu djöflarnir unnu 2-0 sigur en það sem gerðist eftir leikinn, og var ekki fyrir augum okkar vallargesta, er það frægasta sem átti sér stað. Mikil læti voru í göngunum og pizza flaug úr hendi Cesc Fabregas, leikmanns Arsenal, og í sjálfan Sir Alex Ferguson. Gestirnir voru óvanir því að tapa og tóku því ekki vel.

Leikurinn sjálfur var líka feykilega fjörugur, fullur af umdeildum ákvörðunum og miklum látum eins og alltaf þegar þessi tvö lið mættust á þessum tíma.

Rio Ferdinand var stálheppinn að fá ekki rautt spjald í fyrri hálfleik og Roy Carroll var í sjaldséðu stuði og kom í veg fyrir að Arsenal kæmist yfir.

Vendipunkturinn kom svo í seinni hálfleik þegar jafnaldri minn Wayne Rooney hélt upp á nítján ára afmælisdag sinn með því að láta sig falla og krækti í vítaspyrnu. Snertingin frá Sol Campbell var lítil sem engin en Mike Riley dómari féll í gildruna og benti á punktinn.

Ruud van Nistelrooy fór á punktinn og skoraði. 73 mínútur á klukkunni. Ashley Cole var nálægt því að jafna seint í leiknum en þetta var ekki dagur Arsenal og Rooney kláraði leikinn í blálokin með marki eftir skyndisókn.

Eftir leik sauð svo allt upp úr í göngunum þegar Wenger sakaði Van Nistelrooy um óheiðarleika og Ferguson svaraði þeim franska með því segja honum að reyna að hafa stjórn á leikmönnum sínum. Þá var fjandinn laus.

Stemningin meðal áhorfenda var líka eftirminnileg. Sú besta sem ég hef upplifað á fótboltaleik á Englandi. Joey Drummer var á vellinum og lét sitt ekki eftir liggja. Hann fékk áhorfendur til að syngja níðsöngva um Patrick Vieira!

Arsenal jafnaði sig ekki á vonbrigðunum eftir þennan leik og tímabilinu lauk á því að Jose Mourinho stýrði Chelsea til Englandsmeistaratitilsins.

Man Utd: Carroll, Gary Neville, Ferdinand, Silvestre, Heinze, Ronaldo (Smith 85), Phil Neville, Scholes, Giggs, Rooney, Van Nistelrooy (Saha 90)

Arsenal: Lehmann, Lauren, Campbell, Toure, Cole, Ljungberg, Vieira, Edu, Reyes (Pires 70), Bergkamp, Henry.


Athugasemdir
banner
banner
banner