Lækka verðmiðann á Garnacho - Arsenal hefur áhuga á Coman - Frankfurt setur verðmiða á Ekitike
   mán 14. apríl 2025 16:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þrjár Valskonur að vinna sig til baka eftir barnsburð
Elín Metta er mætt aftur í Val.
Elín Metta er mætt aftur í Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti athygli í síðustu viku þegar Elín Metta Jensen fékk félagaskipti frá Þrótti yfir til uppeldisfélagsins Vals. Elín Metta hefur verið einn skæðasti framherji efstu deildar frá því að hún kom sér inn í Valsliðið fyrir rúmum áratug síðan.

Hún var ekki í leikmannahópnum gegn Breiðabliki á föstudag þegar liðin spiluðu í Meistarakeppni KSÍ.

Elín Metta eignaðist sitt fyrsta barn í vetur og er ekki sú eina í Valshópnum sem er að vinna sig til baka eftir barnsburð því fyrrum landsiðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir og einn besti leikmaður Bestu deildarinnar síðustu árin, Arna Sif Ásgrímsdóttir, eru sömuleiðis að snúa til baka.

„Þær eru bara allar að koma til baka eftir barnsburð, eru komnar mismunandi langt. Anna Björk er komin af stað, Arna Sif örlítið en ekki komin í bolta og Elín Metta er komin í bolta og kannski lengst komin af þeim. Við munum ekki setja neina af þeim inn á völlinn fyrr en þær eru örugglega tilbúnar til þess," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, eftir leikinn gegn Breiðabliki á föstudag.

Hann gerir ekki ráð fyrir þeim þremur í leiknum gegn FH á N1 vellinum á miðvikudag.

„Það er ennþá töluverður tími í að þær klukki grænar tölur sem þarf til að við getum sleppt þeim inn á völlinn," sagði Kristján.
Athugasemdir
banner