Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 14. maí 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Passion league spáin - 4. deildin í sumar
Arnar Daði Arnarsson og Magnús Valur Böðvarsson saman í Moskvu á HM í fyrra.
Arnar Daði Arnarsson og Magnús Valur Böðvarsson saman í Moskvu á HM í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jónatan Hróbjartsson er lykilmaður hjá Létti.
Jónatan Hróbjartsson er lykilmaður hjá Létti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjalti Hermann Gíslason er lykilmaður hjá Herði Ísafirði.
Hjalti Hermann Gíslason er lykilmaður hjá Herði Ísafirði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aco Pandurevic er enn í herbúðum Ægis.
Aco Pandurevic er enn í herbúðum Ægis.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Kristján Ómar leikur með varaliði Hauka.
Kristján Ómar leikur með varaliði Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Styrmir Erlendsson leikmaður Elliða.
Styrmir Erlendsson leikmaður Elliða.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Hilmarsson leikmaður Kríu er lykilmaður.
Jóhannes Hilmarsson leikmaður Kríu er lykilmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Sigurður Eyberg Guðlaugsson leikur með Árborg.
Sigurður Eyberg Guðlaugsson leikur með Árborg.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Snæfell er spáð efsta sæti í B-riðli.
Snæfell er spáð efsta sæti í B-riðli.
Mynd: Snæfell
Andri Magnússon er lykilmaður hjá ÍH í B-riðlinum.
Andri Magnússon er lykilmaður hjá ÍH í B-riðlinum.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Úr leik Hvíta Riddarans og Elliða í fyrra.
Úr leik Hvíta Riddarans og Elliða í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Aron Fuego er mættur aftur í KB.
Aron Fuego er mættur aftur í KB.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Afríku og Árborgar.
Úr leik Afríku og Árborgar.
Mynd: Guðmundur Karl Sigurdórsson
Orri Freyr Hjaltalín leikur með GG í sumar.
Orri Freyr Hjaltalín leikur með GG í sumar.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik Kríu og Hamars.
Úr leik Kríu og Hamars.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Keppni í 4. deild karla hófst á sunnudagskvöld en 31 lið tekur þátt í deildinni í ár. Það er sami fjöldi og tók þátt í 4. deildinni í fyrra.

Magnús Valur Böðvarsson hefur um árabil verið helsti sérfræðingur 4. deildarinnar á Íslandi og hér er spá hans fyrir sumarið.

A riðill:
Í fljótu bragði þá er þetta líklega einn jafnasti riðillinn og jafnvel sá slakasti, flest liðin virðast geta staðið í hvort öðru og því góðar líkur að lítið sé að marka spá þessa.

1. Björninn
Liðsmenn Bjarnarins komu vel á óvart á seinasta tímabili og hafa bara bætt sig fyrir þetta tímabil. Þeir hafa meðal annars fengið einn besta sóknarmann deildarinnar Magnús Stefánsson úr ÍH sem á eftir að styrkja liðið. Það er pressa á Birninum að sannreyna þessa spá því þeir gætu allt eins lent í 4.sæti þessa riðils ef illa gengur.
Lykilmenn: Magnús Stefánsson, Hrólfur Vilhjálmsson og Sólon Kolbeinn Ingason.

2. Ýmir
Kynslóðaskipti í Ýmisliðinu eru ekki komin á fullt. Liðið var með meðalaldur uppá 30 ár í fyrra og er árinu eldra í ár. Kjarninn er sá sami en ungir strákar fá að fljóta með sem eru annað hvort ennþá í 2.flokki eða nýstignir uppí meistaraflokk. Þeir hafa ár eftir ár farið í úrslitakeppnina en ekkert lengra en það. Fótboltaleg gæði í liðinu eru líklega þau mestu í deildinni en gegn ungum hröðum strákum hafa þeir verið að lenda í vandræðum með og spurning hvort ungu strákarnir í liðinu nái að redda þeim hluta. Sama sagan virðist vera í gangi í Kópavoginum úrslitakeppni svo líklega ekkert meira.
Lykilmenn: Birgir Ólafur Helgason, Hörður Magnússon og Birgir Magnússon

3. Árborg
Það eru ákveðin kynslóðarskipti í gangi hjá Árborgarmönnum og nýjir ungir strákar að taka við. Það eru þó alltaf gamlir reynsluboltar sem eru ennþá með og skiptir það sköpum en oftar en ekki eru það þannig lið sem gera vel í deildinni. það þarf þó ekki að vera þannig enda steinlágu Árborgarmenn fyrir Augnabliki sem spáð er falli í 3.deildinni og vörnin var að fá talsvert af mörkum á sig í deildarbikarnum líka. Kynslóðarskiptin geta tekið sinn tíma en við spáum Árborgarmönnum samt sem áður 3.sæti.
Lykilmenn: Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Magnús Helgi Sigurðsson og Tómas Kjartansson

4.Mídas
Mídasar menn eru alltaf með lið sem er gjörsamlega óþolandi að mæta, mikil harka og barátta og svona landsbyggðarfílingur í liðinu. Þeir ollu vonbrigðum í fyrra en voru óheppnir með riðil, í ár fóru þeir langt í bikarnum og ullu Völsungum lengi vandræðum. Þeir gefa sterkari liðum alltaf leiki og ná oft í stigum gegn þeim en eiga það til að lenda í vandræðum gegn slakari liðum. Markaskorun hjá liðinu hefur ekki verið sannfærandi en þeir eru í dauðafæri í þessum riðli ætli þeir sér að komast í úrslitakeppni.
Lykilmenn: Óskar Þór Jónsson, Daníel Björn Sigurbjörnsson og Sigurður Ólafur Kjartansson.

5. SR
SR liðið hefur verið að gera fína hluti á seinustu tveim árum eftir að þeir komu aftur inní deildinni. Þeir voru að gefa flestum liðum góðan leik og hafa tekið miklum framförum. Liðið er alltaf sterkara þegar Nik Chamberlain er inná vellinum og getur unnið flest lið á góðum degi. Þeir eiga hinsvegar ennþá smá í það að geta komið sér í úrslitakeppni og allt þyrfti að ganga upp hjá þeim eigi það að gerast. Það er skarð fyrir skyldi að Aron Dagur Heiðarsson verður lítið sem ekkert með SR í sumar vegna meiðsla en hann hefði verið í lykilhlutverki hjá þeim í sumar.
Lykilmenn: Nik Chamberlain, Hrafn Ingi Jóhannsson og Þorvaldur Skúli Skúlason.

6.Vatnaliljur
Vatnaliljurnar eru líka með lið sem getur verið erfitt að mæta, er vel physical lið sem berjast og berjast en vantar oftar en ekki aðeins meiri gæði í liðinu til þess að ná lengra. Þeir hafa oft verið í vandræðum með markaskorun og gerðu til að mynda þrisvar sinnum markalaust jafntefli á seinasta ári sem er alls ekki algengt í ástríðudeildinni.
Lykilmenn: Bjarki Steinar Björnsson, Aaron Palomares og Victor Páll Sigurðsson

7. Samherjar
Samherjar í Eyjafjarðarsveit eru alls engir nýliðar þrátt fyrir að nafn liðsins sé nýtt. Meirihlutinn af mannskapnum er lið Geisla frá Aðaldal frá því í fyrra en staðsetning liðsins hefur breyst. Þeir voru í sterkum riðli í fyrra og náðu í 8 stig í fyrra sem var fínt miðað við 0 stig í fyrri umferð en öll töpin voru með einu marki í jöfnum leikjum. Þeir eru með lið sem alls ekki má vanmeta og ferðalag norður getur tekið sinn toll. Liðið verður að halda áfram að safna stigum á heimavelli og vonandi kroppa í nokkur í ferðum sínum suður.
Lykilmenn: Brynjar Logi Magnússon, Almar Vestmann og Ágúst Örn Víðisson.

8. Ísbjörninn
Maður veit sjaldan hverju maður á von á frá Ísbirninum, þeir virðast alltaf styrkja sig ár frá ári en niðurstaðan nánast alltaf sú sama, botnbarátta. Svo virðist sem meginþorri Stál-úlfs liðsins hafa gengið inní Ísbjörninn en hvort það sé nóg til þess að rífa þá uppá næsta plan er erfitt að segja. Það er í þeirra höndum að afsanna þessa spá og lenda í júmbó sætinu í riðlinum.
Lykilmenn: Alexander Freyr Sigurðsson, Indriði Björn Þórðarson og Sigurður Jakobsson

B - riðill
B riðillinn er líklega sá langsterkasti þetta árið enda mörg lið sem gera tilkall til sætis í úrslitakeppninni. Það getur hreinlega allt gerst en líklega verður þetta barátta fjögurra liða en stefnir í erfitt ár fyrir nýliða KM og Afríku.

1.Snæfell
Snæfellingar unnu Lengjubikarinn í ár en töpuðu óvænt fyrir KB í mjólkurbikarnum. Þeir spiluðu vel á síðasta ári og voru hársbreidd frá sæti í úrslitakeppni en nú er aftur á móti komin pressa á það að komast þangað enda vel lagt í liðið með mörgum erlendum leikmönnum. Það er hinsvegar ekkert öruggt í þessari deild og þurfa þeir að halda rétt á spöðunum ætli þeir sér að komast þangað.
Lykilmenn: Eivinas Zagurskas, Marius Ganusauskas og Milos Janicijevic

2.Úlfarnir
Úlfarnir komu á óvart í bikarkeppninni með stórsigri á Víkingi Ólafsvík og töpuðu naumlega í framlengdum leik gegn Vestra. Samstarfið við Fram er orðið betra og liðið virðist í frábæru formi. Það er spurning hvort þeir missi einhverja stráka yfir í Framliðið og það gæti haft áhrif á framgöngu þeirra í deildinni en ekki má misstíga sig mikið í þessari deild ætli lið sér í úrslitakeppnina.
Lykilmenn: Andri Þór Sólbergsson, Arnór Siggeirsson og Steinar Haraldsson

3. ÍH
Hafnfirðingarnir eru almennt spáð í úrslitakeppnina en ekki þetta árið en B riðillinn er líklega sá sterkasti og ættu að vera í fullum séns á að komast þangað. Það sem hefur bitnað á ÍH þetta árið er stofnun varaliðs Hauka. Þeir virka í fljótu bragði ekki eins sterkir og undanfarin ár en munu klárlega vera berjast um sæti í úrslitakeppninni og munu innbyrgðis leikir skipta miklu máli ætli ÍH sér þangað ÍH hefur nánast verið með áskrift að úrslitakeppninni en sjaldan komist sjaldan lengra en 8-liða úrslitin. Eiríkur Viljar Kúld hefur lítið leikið með ÍH undanfarin ár vegna meiðsla og anna. Hann hefur hinsvegar leikið með liðinu í vetur og ef hann helst heill í sumar þá gæti það skipt sköpum fyrir ÍH. Eiríkur hefur skorað 99 mörk í 110 meistaraflokksleikjum á ferlinum, þar af 26 mörk í 12 leikjum sumarið 2016 með ÍH.
Lykilmenn: Andri Magnússon, Aron Lloyd Green og Eiríkur Viljar Kúld.

4. Hvíti Riddarinn
Hvíti Riddarinn hefur nánast frá stofnun félagsins verið í baráttu um að komast í úrslitakeppnina og eru það alltaf vonbrigði komist liðið ekki þangað. Þeir setja klárlega stefnuna þangað aftur en riðillinn er erfiður í ár og þurfa þeir að hafa vel fyrir því ætli þeir sér að komast þangað aftur í ár. Samstarfið við Aftureldingu er meira en áður og ungir leikmenn úr 2. flokki spila með liðinu í ár líkt og síðari hlutann á síðasta tímabili. Þá eru eldri reynsluboltar á sínum stað.
Lykilmenn: Birgir Freyr Ragnarsson, Gunnar Andri Pétursson og Egill Jóhannsson.

5. Kormákur/Hvöt
Húnvetningar hafa verið með prýðilegt lið á undanförnum árum en vantað herslumuninn til að fara í úrslitakeppnina. Þeir eru óheppnir með riðil í ár og verður að teljast óvænt ef þeir komast þangað í ár. Þeir eru líklegir til að gefa öllum liðunum erfiðan leik og ekki kæmi á óvart ef þeir hefðu úrslitaáhrif á hvaða lið komast í úrslitakeppnina þetta árið. Varnarjaxlinn Bjarki Már Árnason tók við sem spilandi þjálfari í vor og spennandi verður að sjá hvernig hann nær að púsla liðinu saman.
Lykilmenn: Aron Elfar Jónsson, Hilmar Þór Kárason og Sigurður Bjarni Aadnegaard.

6.KB
KB menn hafa valdið vonbrigðum á undanförnum árum en virðast vera á réttri leið að nýju. Þeir slógu Snæfellinga út úr bikarnum þetta árið sem var óvænt og gætu þeir því verið liðið sem kemur á óvart í ár. Nánast allir leikmenn liðsins koma upp úr yngri flokkum Leiknis og nokkrir þeirra eiga að baki tímabil með meistaraflokki Leiknis í næstefstu deild. Aron Fuego Daníelsson gekk í raðir liðsins í vetur og leikur með liðinu í sumar. Það styrkir liðið mikið.
Lykilmenn: Aron Daníelsson, Friðjón Magnússon og Kristján Hermann Þorkelsson.

7. KM
Það stefnir í erfitt ár fyrir nýliðana í KM. Knattspyrnufélag Miðbæjarins virðist vera sambland af fyrrum leikmönnum slökustu liðanna í deildinni á undanförnum árum ásamt öðrum erlendum ríkisborgurum. Árangur þeirra í Lengjubikarnum og æfingaleikjum hafa ekki verið uppá marga fiska en þeir virðast samt sem áður vera með sterkara lið en Afríka. Þetta gæti orðið afar erfitt sumar í gríðarlega sterkum riðli.
Lykilmenn: David Jean Ibarra, Orats Reta og Jaizkibel Roa Argote.

8. Afríka
Það stefnir í enn eitt erfiða árið fyrir Afríkumenn. Það þarf kannski að hafa mörg orð um þá þeir eru ekki mikið í því að safna stigum og miðað við þennan riðil stefnir ekki í að það sé að fara breytast. Líklegt verður að teljast er að KM sé eina liðið sem Afríka á möguleika að ná í stig en vonandi ná þeir að standa í liðum og safna stigum enda hefur Afríka þjónað góðum tilgangi fyrir erlenda innflytjendur að komast inn í samfélagið.
Lykilmenn: Marcin Dawid Czernik, Ismail Anbari og Przemyslaw Józef Chybinski.

C - riðill
Það er erfitt að rýna í C riðilinn, í fljóti bragði virkar hann frekar slakur en áhugaverður. Það eru mörg lið sem geta gert tilkall sætis í úrslitakeppninni og búast má við skemmtilegum riðli

1.GG
Grindvíkingar gerðu góða hluti í Lengjubikarnum og fóru alla leið í úrslit þar sem þeir töpuðu í vítaspyrnukeppni. Þeir verða taka það góða úr Lengjunni inn í mótið ætli þeir sér sæti í úrslitakeppninni en þeir hafa verið með meðallið undanfarin ár. Þeir virðast talsvert sterkari þetta árið og því er þeim spáð 1.sætinu. Liðið er skipað ungum Grindvíkingum í bland við reynslu mikla leikmenn á borð við Orra Frey Hjaltalín og Óla Baldur Bjarnason.
Lykilmenn: Orri Freyr Hjaltalín, Sigurður Þór Hallgrímsson og Ástþór Andri Valtýsson.

2.Hamar
Hamarsmenn eru með lið sem á alltaf að vera í baráttunni um sæti í úrslitakeppni og hafa verið það á undanförnum árum en klúðrað málunum á síðustu stundu. Í ár er dauðafæri fyrir Hvergerðinga að koma sér þangað og þurfa að halda rétt á spöðunum til að koma sér þangað. Heimavöllurinn verður að vera sterkur og stigin munu sigla inn á Grýluvelli. Ég tel að þetta gæti verið ár Hamars. Litlar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í fyrra.
Lykilmenn: Pétur Geir Ómarsson, Sam Malsom og Bjarki Rúnar Jónínuson

3. Berserkir
Berserkir hafa verið í smá niðursveiflu á undanförnum árum en eru alltaf sterkir. Það eru ákveðin kynslóðaskipti í gangi og verða ungu strákarnir að stíga vel upp ætli liðið sér sæti í úrslitakeppninni. Berserkjahraunið verður að nýtast liðinu vel en annars eru flest liðin í þessu riðli sem spila á grasi á meðan Berserkir eru á gervigrasi. Miðað við reynslu eldri leikmanna eru þeir með lið sem á að vinna þennan riðil en miðað við frammistöðuna í Lengjubikarnum og á seinasta ári er þeim spáð því þriðja. Sölvi Þrándarson einn besti FIFA spilari landsins gekk í raðir liðsins í vetur og gæti spilað þeim í sumar.
Lykilmenn: Davíð Stefánsson, Eiríkur Stefánsson og Jón Steinar Ágústsson

4. Léttir
Léttismenn eru ár eftir ár í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og eru kannski stundum vanmetnir í spá sem þessari. Það var ekki að hjálpa liðinu að ÍR hafi fallið enda misstu þeir sinn besta mann frá því í fyrra en hafa fengið markaskorara í Andra Má Ágústssyni sem gæti hjálpað liðinu næsta skref. Þeir eru með lið sem gæti unnið riðilinn en þeir gætu alveg eins dottið niður um eitt sæti miðað við spána. Jónatan Hróbjartsson gekk í raðir félagsins í vetur og gæti hjálpað liðinu töluvert í sumar. Hann hefur spilað með ÍR síðustu átta sumur.
Lykilmenn: Andri Már Ágústsson, Jónatan Hróbjartsson og Guðmundur Gunnar Sveinsson

5.Hörður Ísafirði
Harðarmenn eru alltaf erfiðir heim að sækja og oft getur verið talsverður geturmunur á liðinu sem spilar fyrir vestan og liðinu sem kemur í bæinn á útileiki. Heimavöllurinn verður að gefa nánast fullt hús stiga ef liðið ætlar sér að blanda sér í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni enda mæta mörg lið löskuð þangað. Það er hundleiðinlegt að spila við lið eins og Hörð sem gefur sig oftar en ekki alla fram í hörku og gætu þeir kannski verið liðið sem kemur á óvart.
Lykilmenn: Hjalti Hermann Gíslason, Jóhann Baldur Bragason og Sigþór Snorrason.

6. Álafoss
Mosfellingarnir í Álafossi eru lið sem er að bæta sig ár frá ári. Þeir hafa verið að æfa talsvert betur en seinustu tvö ár og úrslit í leikjum og frammistöðu bæting eftir því. Þeir eru lið sem geta staðið í stóru liðunum núna en geta alveg fengið skelli. Þeir eru komnir í flokk meðalliða í deildinni núna og gætu þeir komið á óvart í sumar þó sæti í úrslitakeppni sé aðeins fjarlægari draumur.
Lykilmenn: Axel Helgi Ívarsson, Sigurjón Grétarsson og Magni Kolbeinsson

7. Fenrir
Fenrismenn koma nýir inn í deildina en þeir eru hálfgert varalið Kórdrengja í 3.deildinni. Úrslitin hingað til hafa ekkert verið til að hrópa húrra fyrir en það er vitað að fyrsta árið er alltaf erfitt og má búast við erfiðu sumri fyrir Fenrismenn. Vonandi koma þeir á óvart og sækja í stig sem ekki er búist við en reikna má með að töpin gætu orðið þónokkur í sumar.
Lykilmenn: Jón Brynjar Jónsson, Kristófer Bæring Sigurðarson og Árni Helgason.

8. Stokkseyri
Það gleður að Stokkseyringar eru komnir í deildina á nýjan leik. Það er alltaf gaman að koma á frímerkið á stokkseyri enda afar skemmtilegt vallarstæði. Vonandi ná Stokkseyringar að tefla fram öflugu liði þetta árið en eins og staðan er núna eru þeir algjörlega óskrifað blað en koma í deildina með skemmtilegan sveip.
Lykilmenn: Örvar Hugason, Þórhallur Aron Másson og Guðni Þór Þorvaldsson

D- riðill
D riðillinn er virkilega áhugaverður riðill sem gæti orðið sá skemmtilegasti. Mörg lið sem gera tilkall til sætis í úrslitakeppninni og fullt af skemmtilegum leikjum í sumar framundan.

1.Ægir
Ægir er lið sem á ekki að vera í neðstu deild karla en þeir féllu í fyrra úr 3.deildinni. Þeir gerðu fína hluti í bikarnum og ættu að vera með lið sem vinnur þennan riðil. Þeir fá ávalt sterka erlenda leikmenn til liðs við sig og ættu ef allt er eðlilegt að fara uppúr 3.deildinni. Vonandi mæta þeir ekki með vanmat á deildina en mörg lið hafa brennt sig á því og í þessum riðli er það bannað enda mörg mjög fín lið. Gamla kempan Nenad Zivanovic er við stjórnvölinn og markmiðið er skýrt í Þorlákshöfn - að fara beint aftur upp.
Lykilmenn: Zoran Cvitkovac, Þorkell Þráinsson og Aco Pandurevic

2.KÁ
Það er sjaldan sem nýliðum er spáð svona ofarlega en Ásvallarmenn eru engir venjulegir nýliðar en þeir eru varalið Hauka. Margir af leikmönnum liðsins gætu skipt aftur yfir í Hauka enda margir leikmenn með Inkasso gæði. Þeir eru líklegir í toppbaráttuna og eru eitt af liðunum sem vilja fara upp um deild. Þeir stóðu vel í úrvalsdeildarliði Víkings í bikarnum og töpuðu aðeins með einu marki og gefur það góð fyrirheit á árangur í deildinni. Þeir hafa æft vel í vetur og eru sennilega það lið sem er í besta forminu. Reynslu miklir leikmenn á borð við Kristján Ómar Björnsson, Hilmar Trausti Arnarsson og Hilmar Rafn Emilsson eru allir skráðir í félagið og gætu leikið með þeim í sumar.
Lykilmenn: Kristján Ómar Björnsson, Patrik Snær Atlason og Stefnir Stefánsson

3.KFS
Eyjamenn eru alltaf með skemmtilegt lið, það eru fá lið sem koma til Eyja og sækja stig og þannig verður það að vera áfram, liðið sem spilar í bænum er samt sjaldan það sama og spilar í eyjum og skiptir því miklu máli að sækja stig einnig á útivelli. Þeir eru nánast alltaf í baráttu um sæti í úrslitakeppninni og ætti árið í ár ekki að vera neitt öðruvísi.
Lykilmenn: Benedikt Októ Bjarnason, Erik Ragnar Gíslason Ruiz og Ásgeir Elíasson

4. Elliði
Elliði er eitt af þessum liðum sem gætu verið í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Það eru margir mjög góðir ungir fótboltamenn í liðinu og 2.flokks strákar sem fá mikilvæga reynslu enda hefur verið gott samstarf á milli Fylkis og Elliða. Það hefur vantað að taka skrefið og komast í úrslitakeppnina og kannski gerist það í ár. Elliði er með fínasta fótboltalið sem á meira inni en að hanga um miðja deild.
Lykilmenn: Daníel Steinar Kjartansson, Stefán Ari Björnsson og Styrmir Erlendsson.

5.Kría
Kríumenn er lið sem hefur verið upp og ofan á undanförnum árum og gefur nánast alltaf góðan leik. Þeir geta unnið öll lið í riðlinum en þeir gætu hinsvegar tapað gegn flestum liðum einnig. Það er eins og það vantaði smá uppá til að liðið geti tekið næsta skref og komið sér í úrslitakeppnina en kannski kemur það í ár.
Lykilmenn: Davíð Fannar Ragnarsson, Jóhannes Hilmarsson og Guðmundur Örn Arnarson.

6. KFR
Það er leiðinlegt að spá Rangeyingum svona neðarlega en þeir áttu alls ekki gott tímabil á seinasta ári og hafa ekki verið að gera nógu góða hluti í vor. Þeir eru með skemmtilegt lið sem berst útí rauðan dauðann og er erfitt að mæta. Þeim sárlega vantar markaskorara sem gæti fleytt liðinu í toppbaráttuna en leikmenn liðsins eru nánast allir uppaldir heimastrákar. Kannski verður draumatímabil KFR í ár, hver veit? Þeir unnu til að mynda KH í bikarnum sem er mjög sterkt og gefur það góðar vonir
Lykilmenn: Hjörvar Sigurðsson, Ævar Viktorsson og Andri Freyr Björnsson

7.Kóngarnir
Kóngarnir hafa alltaf endað í neðsta eða næst neðsta sætinu í riðli sínum á sínum ferli í 4.deildinni og fátt sem bendir til þess að annað verði niðurstaðan í ár. Ekki bætir úr skák að þeir misstu sinn langbesta mann í vor og tveir aðrir burðarrásir hafa farið á sömu braut. Það boðar því miður ekki á gott fyrir Kóngana og kæmi lítið á óvart ef þeir færu stigalausir frá sumrinu.
Lykilmenn: Einar Tryggvason og Klemenz Kristjánsson og Amarildo Siveja.
Athugasemdir
banner
banner