Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 14. júní 2019 21:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Toppliðið tapaði í sjö marka leik
FH kom til baka gegn Stjörnunni og Víkingur vann vígsluleikinn
Fylkismenn unnu toppliðið.
Fylkismenn unnu toppliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Valdimar gerði tvennu fyrir Fylki.
Valdimar gerði tvennu fyrir Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lennon skoraði jöfnunarmark FH.
Lennon skoraði jöfnunarmark FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Víkingur vann sinn fyrsta leik.
Víkingur vann sinn fyrsta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erlingur skoraði sigurmark Víkinga.
Erlingur skoraði sigurmark Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Pepsi Max-deild karla sneri aftur í kvöld eftir landsleikjahlé og var boðið upp á markaveislu í leikjum kvöldsins. Það voru 14 mörk skoruð í þremur leikjum.

Topplið Breiðabliks fór í Árbæinn og tapaði þar gegn Fylki. Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og komust yfir eftir aðeins sex mínútur. Valdimar Þór Ingimundarson skoraði þá eftir mistök hjá Gunnleifi Gunnleifssyni.

Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði fyrir Breiðablik á 27. mínútu en Geoffrey Castillion kom Fylki aftur yfir stuttu fyrir leikhlé.

Blikar fengu draumabyrjun í seinni hálfleik þegar þeir jöfnuðu aftur. Varnarmaðurinn Damir Muminovic skoraði markið. Aftur hélt það sama að gerast; Fylkir komst yfir og Breiðablik jafnaði.

Fylkir komst aftur yfir á 57. mínútu þegar Ásgeir Eyþórsson skoraði og loksins náði Fylkir tveggja marka forystu í þessum geggjaða leik þegar Valdimar Þór Ingimundarsson skoraði á 66. mínútu. Hans annað mark í leiknum.

Thomas Mikkelsen minnkaði muninn í 4-3 þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Hann sótti boltann í markið og Blikar voru að drífa sig, en þeim tókst ekki að skora jöfnunarmarkið. Lokatölur 4-3 fyrir Fylki sem leggur topplið Breiðabliks að velli. „ÞVÍLÍKUR FÓTBOLTALEIKUR! Fylkismenn verðskulda þessi þrjú stig. Blikar voru óhemju daprir stóran hluta af leiknum," skrifaði Elvar Geir Magnússon í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Þetta er annað tap Blika í Pepsi Max-deildinni í sumar. ÍA og KR eiga möguleika á því að komast á toppinn á morgun, en þau lið mætast einmitt á Akranesi.

Fylkir hefur unnið tvo leiki í röð og er komið upp í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig.

Endurkoma FH gegn Stjörnunni
Í Kaplakrika var stórleikur kvöldsins þar sem FH fékk Stjörnuna í heimsókn. Þessi lið hafa eldað grátt silfur á síðustu árum og leikir þessara liða eru oftast mjög spennandi.

Það varð engin breyting á því í kvöld. Stjarnan byrjaði betur og komst yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar Hilmar Árni Halldórsson skoraði úr vítaspyrnu eftir að Atli Guðnason braut á sér.

Hilmar Árni skoraði aftur á 64. mínútu eftir virkilega flott sókn og brekkan orðin nokkuð brött fyrir FH. Þeir voru hins vegar fljótir upp þessa brekku.

FH minnkaði muninn á 68. mínútu þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði sjálfsmark. Nokkrum sekúndum síðar skoruðu FH-ingar aftur með sömu uppskrift, eftir horn. Í þetta skiptið skoraði Steven Lennon.

Það var hart barist á lokamínútunum, en mörkin urðu ekki fleiri. Jafntefli niðurstaðan. Bæði lið eru með 12 stig í fimmta og sjötta sæti deildarinnar.

Víkingur vann sinn fyrsta leik í vígsluleiknum
Í Fossvogi frumsýndi Víkingur R. nýjan gervigrasvöll sinn er þeir mættu nýliðum HK. Víkingur hafði ekki unnið deildarleik fyrir leikinn í kvöld.

En viti menn, fyrsti sigurinn kom á nýja gervigrasinu. Atli Hrafn Andrason skoraði fyrsta markið á gervigrasinu á tíundu mínútu leiksins.

Ásgeir Marteinsson jafnaði á 26. mínútu, en Erlingur Agnarsson kom Víkingi aftur yfir nokkrum mínútum síðar. „Litla markið maður!!!!!!!!!!!! Atli Hrafn fer vel með boltann og tíar hann upp fyrir Erling við vítateigslínu vinstra megin og Erlingur smyr hann í sammarann," skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

HK náði að ógna á síðustu mínútunum en inn fór boltinn ekki og fyrsti sigur Víkinga staðreynd í fyrsta leiknum á nýja gervigrasinu.


Víkingur fer upp í níunda sæti með sjö stig á meðan HK er með fimm stig í tíunda sæti.

Fylkir 4 - 3 Breiðablik
1-0 Valdimar Þór Ingimundarson ('6 )
1-1 Höskuldur Gunnlaugsson ('27 )
2-1 Geoffrey Wynton Mandelano Castillion ('42 )
2-2 Damir Muminovic ('48 )
3-2 Ásgeir Eyþórsson ('57 )
4-2 Valdimar Þór Ingimundarson ('66 )
4-3 Thomas Mikkelsen ('85 )
Lestu nánar um leikinn

Víkingur R. 2 - 1 HK
1-0 Atli Hrafn Andrason ('10 )
1-1 Ásgeir Marteinsson ('26 )
2-1 Erlingur Agnarsson ('37 )
Lestu nánar um leikinn

FH 2 - 2 Stjarnan
0-1 Hilmar Árni Halldórsson ('45 , víti)
0-2 Hilmar Árni Halldórsson ('64 )
1-2 Guðmundur Steinn Hafsteinsson ('68 , sjálfsmark)
2-2 Steven Lennon ('69 )
Lestu nánar um leikinn

Umferðin klárast á morgun með þremur leikjum.

laugardagur 15. júní
16:00 ÍA-KR (Norðurálsvöllurinn)
16:00 Valur-ÍBV (Origo völlurinn)
17:00 KA-Grindavík (Greifavöllurinn)


Athugasemdir
banner
banner