Enski varnarmaðurinn Harry Maguire varð fyrir barðinu á stuðningsmönnum Skotlands er Englendingar unnu 3-1 sigur á nágrönnum sínum í vináttuleik á dögunum.
Maguire hefur mátt þola erfiða gagnrýni og í raun hreint og beint einelti síðustu tvö árin, en hann er að eiga erfitt með að koma til baka og sigrast á þessum gagnrýnisröddum.
Hann fékk síðari hálfleikinn gegn Skotum og ekki hjálpaði hann sjálfum sér er hann sparkaði fyrirgjöf Skota í eigið net.
Skosku stuðningsmennirnir gerðu látlaust grín að honum en hann segist vera með breitt bak.
„Þetta tekur í raun alla pressuna af liðsfélögunum og hún fer öll yfir á mig. Það lætur þá spila betur, það er alveg klárt,“ sagði Maguire.
„Þetta er bara smá 'banter' og þetta er auðvitað fjandsamlegt umhverfi að koma hingað á útivöll í Skotlandi. Við vissum alveg hvernig þetta yrði og þegar þú heyrir þjóðsönginn og hvernig þeir vanvirða hann þá vissum við að þetta yrði fjandsamlegt og ég fékk þetta allt á mig meirihluta seinni hálfleiksins. Ég get glaður tekið því, hafðu engar áhyggjur af því,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir