Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 14. október 2013 08:30
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Styðjum vonarstjörnur okkar - Mætum á völlinn í kvöld
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
U21 landsliðið hefur verið magnað í undankeppni EM 2015.
U21 landsliðið hefur verið magnað í undankeppni EM 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Strákarnir pökkuðu Hvíta-Rússlandi saman á Vodavone-vellinum í ágúst.
Strákarnir pökkuðu Hvíta-Rússlandi saman á Vodavone-vellinum í ágúst.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geoffrey Kondogbia, leikmaður Monaco, verður meðal mótherja Íslendinga í kvöld.
Geoffrey Kondogbia, leikmaður Monaco, verður meðal mótherja Íslendinga í kvöld.
Mynd: Getty Images
Stuðningurinn gegn Kýpur var magnaður.
Stuðningurinn gegn Kýpur var magnaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og alþjóð veit mun íslenska A-landsliðið mæta Noregi í undankeppni HM 2014 á þriðjudaginn. Gríðarleg spenna er fyrir leiknum og ef allt endar á besta veg mun Ísland fara i umspil um sæti í lokakeppninni í Brasilíu. Þeir sem hefðu haldið því fram fyrir fjórum árum að við yrðum í þessari mögnuðu stöðu á þriðjudag hefðu sjálfsagt verið taldir ofur-bjartsýnir og óraunsæir. En hér erum við!

En nú strax að öðru. Leikurinn gegn Noregi er á morgun og skiljanlega mikil spenna fyrir hann. Í kvöld klukkan 18:30 er hins vegar annar landsleikur, sem er einnig ótrúlega merkilegur og mikilvægur.

Íslenska U21 landsliðið mun nefnilega mæta Frakklandi í undankeppni EM 2015 á Laugardalsvellinum. Íslensku strákarnir hafa farið frábærlega af stað í þessari keppni og unnið alla fjóra leiki sína til þessa og eru á toppi riðilsins. Nú mæta þeir sínum sterkasta andstæðingi til þessa – liði Frakklands, sem er að mörgu leiti skipað heimsmeisturum U20 landsliða frá því í sumar.

Hver man ekki eftir þeirri brjáluðu stemningu sem myndaðist í kringum U21 landsliðið þegar strákarnir voru að berjast um sæti á EM 2011 í Danmörku? Leikurinn gegn Þýskalandi í Kaplakrika er algerlega ógleymanlegur, mörg þúsund áhorfendur mættu og horfðu á strákana okkar rúlla upp sterkasta landsliði heims í þessum aldursflokki.

Ekki var stemningin síðri gegn Skotlandi í umspilsleiknum á Laugardalsvelli og viti menn – strákarnir okkar fóru alla leið í lokakeppnina.

Hvar eru þessir strákar í dag? Jú.. margir þeirra eru nú algerir lykilmenn í okkar frábæra A-landsliði sem hefur nú þegar skráð sig á spjöld sögunnar, og gæti farið enn lengra með það á þriðjudagskvöld. Það er ótrúlega stutt síðan þessir strákar voru í U21 landsliðinu, þvílíkt stökk sem þeir hafa tekið.

Menn geta hugsanlega talað um að U21 landsliðið í dag sé ekki jafn ótrúlegt og einstakt og U21 landsliðið var þá hvað stjörnur varðar; þegar við vorum með menn eins og Gylfa Þór, Aron Einar, Birki Bjarnason, Jóhann Berg, Alfreð og fleiri. Í liðinu í dag eru kannski ekki jafn „stór nöfn“ eða ekki jafn margir leikmenn sem eru komnir jafn langt á sínum ferli, við getum kannski sæst á það.

En tölurnar ljúga ekki. Liðið okkar er með fullt hús stiga og á góðri leið með að fara upp úr riðlinum sínum. Það er alls ekki hægt að útiloka að þessir strákar afreki það sama og hið ótrúlega lið sem fór á EM 2011 í Danmörku og fékk alla þjóðina á bakvið sig. Eru þeir þá eitthvað minna magnaðir en það lið? Að mínu mati ekki. Afrekið yrði það sama, og alveg jafn virðingarvert.

Við erum ekki bara með frábært A-landslið, heldur líka frábært U21 landslið. Framtíð Íslands er einfaldlega björt! Við getum farið neðar í enn yngri landslið og séð að við erum á hrikalega góðri leið!

Strákarnir í U21 landsliðinu eiga skilið að þjóðin flykkist á bakvið þá. Hver veit nema margir þeirra verði burðarásar, lykilmenn, í A-landsliðinu innan nokkurra ára?

Auðvitað eigum við að mæta á Laugardalsvöllinn og búa til frábæra stemningu fyrir liðið gegn stórliði Frakklands. Það er ekki eins og við þurfum bara að gleyma U21 landsliðinu þó að A-landsliðinu gangi vel. Þvert á móti eigum við að nýta okkur þetta frábæra augnablik, að eiga frábær landslið; bæði A-landslið, U21 landslið og kvennalandslið.

Hversu súr og svekkt vorum við alltaf þegar A-landsliðinu gekk illa fyrir ekki svo óralöngu síðan? Hversu mikið vonuðum við að þetta myndi breytast?

Nú hefur þetta breyst. Nú erum við með frábær landslið og við eigum að fara á völlinn, sýna að okkur finnst það merkilegt að íslensk knattspyrna sé á svona ótrúlega mikilli uppleið, og styðja við strákana.

Auðvitað ætlum við öll að horfa á Noregsleikinn. En ég segi; Auðvitað ættum við líka öll að fara á Laugardalsvöllinn í kvöld og horfa á vonarstjörnurnar okkar. Þessir strákar hafa unnið sér það inn, og þeir munu ná langt!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner