Valur hefur samið við norska miðvörðinn Markus Lund Nakkim. Markus er fæddur árið 1996 og á yfir 100 leiki í efstu deild í Noregi. Síðast lék hann í Bandaríkjunum.
Markus skrifaði undir samninginn sem er til tveggja ára á N1 vellinum að Hlíðarenda í dag. Við það tilefni sagðist hann gríðarlega ánægður með að hafa náð samningum við Val.
„Langaði að koma í félag með mikinn metnað sem ætlar sér að berjast um titla og ná langt í Evrópu og samtöl mín við Tufa og Arnór hafa sannfært mig um að Valur sé slíkur klúbbur,“ sagði Markus Nakkim.
Arnór Smárason yfirmaður fótboltamála hjá Val segir félagið horfa í nokkra þætti þegar verið er að sækja erlenda leikmenn. Eitt af því sé hvernig karakter viðkomandi sé og eftir samtöl við Markus og aðila sem þekkja til er ljóst að þarna er frábær leiðtogi á ferð.
„Markus hefur verið fyrirliði í liðum sem hann hefur leikið með og þetta er alvöru karakter sem passar vel inn í það sem við erum að gera. Hópurinn er sífellt að þéttast hjá okkur og bæði Markus og Tómas Bent sem við fengum á dögunum eru mikilvæg púsl fyrir komandi átök,“ sagði Arnór.
Athugasemdir