Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
banner
   mán 15. júní 2015 09:00
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Tveir fuglar í skógi
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
watermark Strákarnir stigu stórt skref í átt að Frakklandi á föstudaginn.
Strákarnir stigu stórt skref í átt að Frakklandi á föstudaginn.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
watermark Lettar munu ekki gefa okkur neitt í Laugardalnum.
Lettar munu ekki gefa okkur neitt í Laugardalnum.
Mynd:
watermark Kasakstan er líklega besta liðið í neðsta styrkleikaflokki.
Kasakstan er líklega besta liðið í neðsta styrkleikaflokki.
Mynd:
Síðastliðið föstudagskvöld stóð íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu frammi fyrir sinni stærstu prófraun til þessa þegar Tékkland mætti í heimsókn á Laugardalsvöllinn í undankeppni EM 2016 í Frakklandi.

Þetta var sjötti leikur liðsins í þessari undankeppni, toppslagur gegn eina liðinu sem hafði sigrað okkur til þessa. Ljóst var að sigur í þessum leik hefði gríðarlega mikla þýðingu á meðan tap gæti haft óskemmtilegar afleiðingar.

Strákarnir okkar stóðust þessa prófraun með glans, unnu frábæran 2-1 sigur og skutust upp í toppsæti riðilsins. Útlitið er bjart og óhætt er að segja að það sé orðið afar raunhæft að Ísland verði meðal þátttakenda á Evrópumótinu í Frakklandi.

Íslenska þjóðin á algeran rétt á því að vera stolt af strákunum okkar og öllu teyminu. Auðvitað erum við stolt af þeim magnaða árangri sem náðst hefur. Þetta landslið er án efa það besta sem við höfum nokkurn tíma átt og með þá Lars Lagerback og Heimi Hallgrímsson í brúnni virðist enginn geta stöðvað þá.

Það er ekki skrítið að fólk hugsi núna að landsliðið sé einfaldlega komið á EM 2016. Hugmyndin er augljós; ef við vinnum Lettland og Kasakstan heima, þá erum við með 21 stig og þetta er svo gott sem komið. Ef svo ólíklega vill til að við verðum ekki í einu af tveimur efstu sætunum, þá eru yfirgnæfandi líkur á því að við verðum með besta árangurinn meðal liða í þriðja sæti og förum beinustu leið til Frakklands.

En eftir leikinn, þegar ég var búinn að missa mig í gleðinni eins og allir aðrir, þá varð mér hugsað til ummæla Heimis Hallgrímssonar á blaðamannafundi fyrir þennan mikilvæga leik gegn Tékklandi.

Heimir sagði að það væri mikið óráð að gefa sér það að við munum vinna bæði Lettland og Kasakstan heima. Vissulega unnum við þessi lið á útivelli og vissulega erum við með betra lið. En líkt og Heimir sagði, þá er ekkert hættulegra heldur en að festast í þeirri hugmynd að þetta séu sex auðveldir punktar.

Gleymum því ekki að Lettland náði 1-1 jafntefli í Tékklandi og gerði Íslandi erfitt fyrir áður en þeir misstu mann af velli, og að Kasakstan hefur valdið mörgum liðum í riðlinum erfiðleikum þrátt fyrir að hafa einungis eitt stig.

Ef leikmenn byrja að telja stigin og gera ráð fyrir því að þetta séu unnir leikir áður en þeir eru spilaðir, þá getur stefnt í óefni. Hver man ekki eftir því þegar við unnum Noreg með frábærum leik í Laugardal í síðustu undankeppni og skelltum okkur síðan til Kýpur og töpuðum?

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan það gerðist og ekki er að sjá á strákunum að þeir hafi ofmetnast þrátt fyrir frábæran árangur í þessari undankeppni. En við Íslendingar erum auðvitað ofur-bjartsýnir að eðlisfari og við erum fljót á flug. Annað hvert ár höldum við að við getum unnið Eurovision og niðurstaðan verður oftar en ekki vonbrigði.

Það er gott að láta sig dreyma og auðvitað eigum við að vera bjartsýn og vongóð um að Ísland sé á leið á EM 2016. Þetta er algerlega í höndum strákanna.

En án þess að ég vilji skemma partýið, og ég ítreka það að strákarnir hafa staðið sig frábærlega og eiga skilið allt það hrós sem hægt er að ausa yfir þá, þá er auðvitað of snemmt að byrja að fagna strax.

Sigurinn gegn Tékklandi er vissulega einn fugl í hendi, en leikirnir gegn Kasakstan og Lettlandi eru í augnablikinu ekkert annað en tveir fuglar í skógi. Við höfum ekki unnið þá ennþá, en gerum það vonandi.

Áfram Ísland!

Athugasemdir
banner