
,,Ég held að það geti allir verið sammála um að liðsheildin og baráttuandinn hafi kreist þennan sigur fram þó við höfum verið skipulögð og vissum nokkurn veginn hvað þurftum að gera til að vinna," sagði Gunnar Borgþórsson þjálfari kvennaliðs Selfoss eftir 1 - 3 sigur á Val í Pepsi-deild kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 3 Selfoss
,,Þetta var manshaft, við töluðum um það fyrir leik að það þyrftu allir að vera smá Schweinsteiger í kvöld. Ég er hrikalega stoltur af stelpunum."
,,Mér fannst leikurinn nokkuð góður, það var mikil barátta og erfiður blautur völlur og boltinn skaust mikið. Það var því mikið af sendingafeilum. En heilt yfir skemmtilegur leikur, það er gaman þegar það er barátta og menn eru að veltast um í jörðinni með slefið út á kinn."
Leikurinn var fjörugur í fyrri hálfleik en datt niður í þeim síðari. Hvað lagði Gunnar upp með þar? ,,Ég veit ekki hvort ég eigi að segja frá því en jújú, við ákváðum að reyna að halda boltanum betur, halda áfram að glenna þær og beina þeim í þá átt sem við vissum að myndi ekki henta þeim."
Nánar er rætt við Gunnar í sjónvarpinu að ofan en þar segir hann frá því að Dagný Brynjarsdóttir, Celeste Boureille og Thelma Björk Einarsdóttir séu á förum frá félaginu í nám erlendis.
Athugasemdir