Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 16. apríl 2020 11:00
Sigurður Marteinsson
Heimild: Football Italia | World Soccer | Scorum | These Football Times | Some Green Grass | Wikipedia 
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ostur og fótbolti: Ris og Fall Parma: 1990 - 2003
Sigurður Marteinsson
Sigurður Marteinsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Á tímum sem þessum þar sem enginn fótbolti er á skjánum fer maður oft að hugsa til baka. Núna þegar allt er stopp hefur maður tíma til að gera síðustu ár upp í huganum, bæði hvað varðar fótbolta og annað í lífinu. Knattspyrnuáhugamenn ryksuga internetið í leit gömlum leikjum, tölfræðiupplýsingum og fróðleik.

Margir hugsa til baka þegar þeir voru fyrst að byrja að fylgjast með fótbolta. Hjá mér kemur lið Parma frá tíunda áratugnum oft upp í hugann. Liðið var frábærlega mannað, spilaði skemmtilegan fótbolta og náði toppnum á sama tíma og ítalskur fótbolti var sá besti í heiminum. Enska úrvalsdeildin var ekki komin á þann stall sem hún er í dag og flestir leikmenn kepptust við að komast á samning hjá liðum í Seríu A. Parma reis hátt á þessum tíma en að sama skapi var fallið hátt.

Miðlungslið í neðri deildum
Knattspyrnulið Parma var stofnað árið 1913 en gerði ekki merkilega hluti fyrstu sjötíu ár tilveru sinnar. Liðið lallaði um neðri deildir á Ítalíu án þess að vekja sérstaka athygli. Árið 1985 komumst þeir upp í Seríu B undir stjórn Arrigo Sacchi. Tímabilið 86/87 voru þeir aðeins þremur stigum frá því að komast upp í Seríu A. Sacchi sagði skilið við liðið og tók við Ac Milan þar sem hann varð síðar meir að goðsögn.

Maðurinn sem tók við af Sacchi, Nevio Scala, lagði grunninn að velgengni Parma á tíunda áratugnum. Scala hafði vakið athygli Parma eftir að hafa komið Reggina upp í Seríu B og var talinn vera rétti maðurinn til að koma Parma upp í Seríu A. Á sama tíma gerði liðið samning við mjólkurvörufyrirtækið Parmalat (sem er frá sömu borg) um að gerast aðal styrktaraðili þeirra. Parma er frá héraðinu Emilia - Romagna sem er einmitt frægt fyrir mjólkurvörur og þá sérstaklega Parmesan ost. Þetta átti eftir að reynast upphafið að miklu ævintýri.

Scala var mikill spekúlant þegar kom að taktík og það bar árangur því tímabilið 89/90 endaði Parma í fjórða sæti í Seríu B og komst upp í Seríu A. Mjólkurbarónarnir í Parmalat ákváðu að stökkva á tækifærið og keyptu 98% hlut í félaginu. Forstjóri Parmalat, Calisto Tanzi tók við stjórnartaumunum og skipaði kollega sinn Giorgio Pedraneschi sem forseta félagsins. Þetta markaði upphafið að mikilli velgegni Parma.

Fyrstu árin í Seríu A
Loksins voru Parma komnir upp í Seríu A og mjólkurbarónarnir hófust strax handa við dæla peningum í félagið. Leikmenn á borð við Taffarel, Georges Grun, Luigi Apolloni og Lorenzo Minotti voru keyptir og þá fékk félagið einnig svíann knáa Thomas Brolin sem hafði vakið mikla athygli á HM 1990 til að styrkja framlínuna.

Liðið endaði í fimmta sæti á sínu fyrsta tímabili í efstu deild sem er frábær árangur. Sjöunda sætið tímabilið eftir það voru því talsverð vonbrigði. Parma tókst þó að vinna ítalska bikarinn þetta árið eftir sigur á Juventus, fyrsta stóra titilinn í sögu félagsins.

Með því að vinna ítalska bikarinn unnu Parma sér þáttökurétt í hinni stórmerkilegu Evrópukeppni Bikarhafa tímabilið 92/93. Kólumbíumaðurinn Faustino Asprilla var keyptur til liðsins fyrir tímabilið og Parma gerði sér lítið fyrir og sigraði Evrópukeppni Bikarhafa með 3 -1 sigri á Royal Antwerpen á Wembley. Liðið endaði í þriðja sæti í Seríu A, þeirra besti árangur síðan þeir komust í efstu deild.

Gianfranco Zola var keyptur frá Napoli fyrir tímabilið 93/94 og varð markahæstur með 22 mörk. Roberto Nestor Sensini var einnig fenginn til að styrkja vörnina. Liðið fór aftur alla leið í úrslit í Evrópukeppni Bikarhafa en tapaði fyrir Arsenal. Fimmta sætið var niðustaðan í Seríu A. Parmalat hélt áfram að moka peningum í félagið sem átti heldur betur eftir að uppskera.

Il Grande Parma
Uppgangur Parma hélt áfram. Fernando Couto var fenginn til að styrkja vörnina ennfrekar og Dino Baggio var keyptur frá Juventus til að vera akkeri á miðjunni. Árangurinn var eftir því. Parma lagði Juventus undir stjórn Marcello Lippi í úrslitum Evrópukeppni Félagsliða (Uefa Cup) og fyrsti Evrópubikar Parma kominn í hús.

Juventus náði þó fram hefndum í Ítalska bikarnum þar sem þeir höfðu betur gegn Parma. Lippi og félagar höfðu einnig betur í Seríu A þar sem þeir enduðu efstir, tíu stigum á undan Parma sem endaði í þriðja sæti með jafnmörg stig og Lazio. Engu að síður frábær árangur og besta tímabil Parma hingað til staðreynd. Mikill vill meira segir máltækið. Tanzi og félagar hans í Parmalat fóru að skipta sér meira og meira af því hvernig Scala stillti upp liði sínu. Þeim fannst óásættanlegt að Scala hefði ekki enn tekist að ná í Scudetto og fóru því að ákveða fyrir hann hvaða leikmenn væru keyptir.

Búlgarinn Hristo Stoichkov var því fenginn fyrir tímabilið 95/96. Þessu var Scala ekki sammála, fannst félagið hafa borgað allt of mikið fyrir leikmann sem var hugsanlega búinn með bestu ár ferils síns. Fabio Cannavaro var keyptur frá Napoli og ungur markvörður að nafni Gianluigi Buffon spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið. Árangurinn var talsverð vonbrigði miðað við fyrri tímabil: Sjötta sæti í Seríu A og engir aðrir titlar. Tanzi var kominn með nóg og Scala var látinn fara.

Nú átti að fara á eftir titlum. Gianfranco Zola var seldur til Chelsea. Lilian Thuram, Enrico Chiesa, Hernan Crespo og Mario Stanic voru allir keyptir. Carlo Ancelotti var fenginn til að stýra liðinu. Ancelotti stýrði Parma í tvö tímabil en Tanzi fannst árangurinn ekki nógu góður. Fyrir tímabilið var 98/99 var Ancelotti látinn fara og Alberto Malesani fenginn í hans stað.

Þetta tímabil reyndist vera það besta í sögu Parma. Liðið endaði í fjórða sæti í Seríu A, sigraði Marseille í úrslitum Evrópukeppni Félagsliða og lagði Fiorentina að velli í úrslitum Ítalska bikarsins. Ótrúlegur árangur hjá liði sem hafði aðeins spilað níu ár í efstu deild á Ítalíu. Flestir aðdáendur Parma tala um þetta lið sem Il Grande Parma.

Gjaldþrot og botninum náð
Parma var á toppi tilverunnar en félagið var þó búið að hlaða upp ansi mikið af skuldum. Þeir náðu ágætis árangri tímabilin eftir að hafa unnið Evrópukeppni Félagsliða en ekki tókst þeim að vinna Seríu A. Skuldirnar héldu áfram að hlaðast upp og félagið neyddist til að selja sína bestu leikmenn einn á eftir öðrum.

Árið 2003 var Parmalat úrskurðað gjaldþrota og Calisto Tanzi var dæmdur í fangelsi fyrir skattsvik og önnur efnahagsbrot. Fjárhagslegur veruleiki félagsins var allt í einu orðinn allt annar. Parma fékk loks nýjan eiganda árið 2007 þegar Tommaso Ghirardi keypti félagið á uppboði. Þeim tókst að halda sér í deildinni og spiluðu oft ágætis fótbolta en fjárhagsleg vandræði héldu þó áfram. Leikmenn og starfsfólk félagsins fengu borgað seint og illa.

Tímabilið 14/15 byrjaði félagið með mörg stig í mínus vegna fjárhagsvandræða. Sama ár seldi Ghirardi félagið fyrir aðeins eina evru. Botninum var náð fyrir stuðningsmenn Parma og árið 2015 var félagið í þáverandi mynd lagt niður og úrskurðað gjaldþrota. Nýtt félag var reist upp úr rústunum og byrjaði í Seríu D.

Árið 2018 tókst Parma að komast aftur upp í Seríu A og hafa verið þar síðan. Einn leikmaður, Alessandro Lucarelli, hélt tryggð við félagið þegar þeir fóru niður í Seríu D og fór með þeim aftur upp í Seríu A. Lucarelli er algjör goðsögn hjá stuðningsmönnum félagsins og er í jafn miklum metum og Buffon, Cannavaro og Crespo.

Parma reis í hæðstu hæðir og verður minnst fyrir að hafa spilað frábæran fótbolta. Ofkeyrsla hjá metnaðarfullum eigendum varð þeim þó að falli. Stuðningsmenn félagsins eru flestir meðvitaðir um það að Parma mun sennilega ekki ná svona árangri aftur. Í dag er félagið þó mun betur rekið og er yfirleitt um miðja deild á Ítalíu. Það er kannski ekki mjög spennandi fyrir stuðningsmenn en þeir geta þó alltaf horft til baka til Moskvu árið 1999 þegar Parma lagði Marseille að velli í úrslitum Evrópukeppni Félagsliða og var eitt besta lið Evrópu.
Athugasemdir
banner
banner