Helgi Fróði Ingason, sá gríðarlega efnilegi leikmaður, skipti frá Stjörnunni til Helmond Sport í Hollandi áður en félagaskiptaglugginn á Íslandi lokaði í vikunni. Helgi Fróði skrifar undir fjögurra ára samning við hollenska félagið.
Hinn átján ára gamli Helgi Fróði er mikið efni en þessi skemmtilegi miðjumaður hefur leikið 30 leiki fyrir Stjörnuna í efstu deild og skorað tvö mörk.
Hinn átján ára gamli Helgi Fróði er mikið efni en þessi skemmtilegi miðjumaður hefur leikið 30 leiki fyrir Stjörnuna í efstu deild og skorað tvö mörk.
„Ég heyrði snemma í sumar af áhuga frá Hollandi og vissi að það voru lið að koma til Íslands og fylgjast með mér. Umboðsmaðurinn minn átti svo í samskiptum við þau og Stjörnuna um hvernig næstu skref gætu litið út. Fyrir mig skipti mestu máli að eiga gott sumar og ég þakka Jökli (Elísabetarsyni, þjálfara Stjörnunnar) traustið sem hann sýndi mér. Ég vissi að ef ég spilaði vel væri líklegt að það kæmu tilboð. Draumurinn var alltaf að fara út í sumar og ég er mjög ánægður að það hafi gengið upp," segir Helgi Fróði í samtali við Fótbolta.net.
„Ég vissi af áhuga frá Hollandi frá því í byrjun júní sirka svo viðræður á milli klúbbana tóku sinn tíma. Stjarnan hafnaði þó nokkrum tilboðum veit ég. Ég var svo sem ekkert að pæla í því en þegar félögin náðu saman í síðustu viku gerðist þetta mjög hratt og ég flaug út á mánudagsmorgun eftir Blikaleikinn."
Við fókusuðum á það
Það var mikill áhugi á Helga Fróða enda einn efnilegasti leikmaður Íslands um þessar mundir.
„Já, það var mikill áhugi. Það er vel fylgst með því sem er í gangi hjá Stjörnunni enda margir leikmenn farið í atvinnumennsku þaðan síðustu ár. Planið hjá okkur var að taka næsta skref frá Íslandi til Hollands þar sem deildin og kúltúrinn þar henta mér mjög vel. Við fókusuðum á það og Helmond var síðan klúbburinn sem mér fannst passa best við mínar pælingar," segir Helgi en hvað var það við Helmond sem heillaði?
„Þetta er félag með mikinn metnað og mikið passion. Ungir leikmenn fá góða kennslu og þetta er góður staður til að bæta sig sem fótboltamaður. Helmond sá fyrir sér að fá mig inn í stórt hlutverk og þeir gera miklar væntingar til mín og það heillaði. Ég vildi fara í félag sem var með gott plan og sá hlutina á svipaðan hátt og ég og Helmond tikkaði í öll boxin þar."
„Ég er alveg meðvitaður um að fyrsta skrefið er að komast inn í hlutina, venjast nýju landi og nýju félagi. Ég stefni á að sanna mig hjá þeim og að vinna mér inn stórt hlutverk. Ég þekki það hjá Stjörnunni að maður þarf að æfa vel og vinna sér inn mínútur og ég stefni á það úti."
Helgi kveðst mjög spenntur að hefja nýjan kafla í Hollandi þar sem hann fær að upplifa drauminn um atvinnumennsku.
„Það er eitthvað sem ég hef stefnt að í langan tíma og ég er ótrúlega spenntur. Fólkið hérna tekur vel á móti manni og bærinn er þægilega stór. Þetta er engin stórborg en kannski 100 þúsund manna bær og ég hlakka til að koma mér fyrir hérna," segir hann.
Er ótrúlega þakklátur
Hann kveðst þakklátur fyrir tíma sinn hjá Stjörnunni og það traust sem hann fékk ungur að árum í Garðabænum.
„Heilt yfir feril minn hjá Stjörnunni er ég ótrúlega þakklátur. Ég spilaði upp alla yngri flokkana og stefndi alltaf á að komast út í atvinnumennsku. Þegar ég var í 4. og 3.flokki var ég oft í B-liðinu en það segir kannski margt að nokkrum árum seinna var ég farinn að spila í meistaraflokki og stuttu seinna kominn út," segir Helgi Fróði.
„Félagið hefur hjálpað mér gríðarlega mikið að bæta mig og þá er ég sérstaklega þakklátur Jökli fyrir trúnna sem hann hefur haft á mér. Aðstaðan hjá Stjörnunni og stuðningurinn við unga leikmenn er ólýsanlegur. Þeir hafa búið til ótrúlega flotta umgjörð."
„Tímabilið sjálft hefur verið lærdómsríkt. Það hefur verið geggjað að spila fyrir framan Silfurskeiðina með mörgum af bestu vinum mínum, fá að læra af reyndari leikmönnum liðsins og taka þátt í Evrópuleikjum. Félagið er á ótrúlega flottri leið."
Var erfitt að kveðja Stjörnuna?
„Já og nei. Það er náttúrulega erfitt að kveðja liðsfélagana og flytja frá fjölskyldunni en á sama tíma er þetta eitthvað sem ég hef dreymt um allan minn feril. Ég er bara þakklátur félaginu og stjórninni fyrir að styðja mig í þessu. Nú er hausinn kominn á að standa mig vel hér og ég er mjög spenntur fyrir því," segir Helgi Fróði og bætti við að lokum:
„Ég hef alltaf haft fulla trú á því að fara alla leið. Ég vil komast eins langt og mögulegt er, spila í bestu deildum heims og einbeiti mér að því að taka eitt skref í einu. Ég byrja á því að standa mig vel hjá Helmond Sport og ég veit að það tekur mig áfram lengra."
Athugasemdir