Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, var ánægður fyrir hönd brasilíska sóknarmannsins Richarlison, sem skoraði og lagði upp, í 2-1 sigri liðsins á Sheffield United í dag.
Richarlison hafði aðeins skorað eitt deildarmark fyrir Tottenham fram að leiknum í dag en það mark kom í apríl á síðasta tímabili.
Hann hefur átt erfitt uppdráttar hjá Lundúnarfélaginu og hefur það augljóslega haft mikil áhrif á andlega þáttinn.
Á dögunum mistókst honum að skora í leik með brasilíska landsliðinu og sást grátandi á bekknum, en hann getur nú fundið gleði sína á ný eftir frammistöðu dagsins.
„Það er nú þegar alvöru þrautseigja og andi í hópnum, sem er auðvitað frábært að sjá því þetta er frekar nýr hópur,“ sagði Postecoglou.
„Á svona dögum reynir á okkur. Það hjálpar að koma með trú til að við getum haldið áfram að vaxa og stuðningsmennirnir fá að upplifa ógleymanlegan dag. Allir þessir hlutir hjálpa til við það sem við erum að reyna að gera.“
„Við þurfum að viðhalda jafnvægi í lífínu og það á líka við um hann. Richarlison þarf að fatta það að hann er stórkostlegur fótboltamaður og er enn að spila góðan fótbolta. Hann er með svo margt fram að færa og það getur hjálpað að létta byrðina sem hann finnur fyrir í öðrum þáttum lífsins eins og hjá svo mörgum okkar.“
„Ég er ótrúlega ánægður fyrir hans hönd. Mér fannst hann gera vel og við vorum auðvitað að reyna að ná í mark og koma boltum inn í teiginn og þar var hann sérstaklega ógnandi í loftinu,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir