Grótta endaði í 9. sæti Lengjudeildarinnar eftir 4-1 tap gegn Lengjudeildarmeisturum ÍA í dag.
Lestu um leikinn: ÍA 4 - 1 Grótta
Aron Bjarki Jósepsson leikmaður liðsins er svekktur með niðurstöðuna.
„Þetta eru ákveðin vonbrigði. Við ætluðum að vera í efri hlutanum og berjast fyrir því að fara upp. Okkur finnst við vera með lið sem getur keppt ofar í deildinni en taflan lýgur ekki, þetta er eins og það er," sagði Aron Bjarki.
„Það er stutt á milli í þessu, við teljum okkur geta gert betur og það þarf ekki mikið til að gera betur í þessari deild. Við þurfum að bæta okkur í ákveðnum þáttum ef við ætlum að taka þátt í efri hlutanum."
Aron Bjarki er orðinn 33 ára gamall en hann ætlar að skoða það hvort hann verði áfram á fótboltavellinum næsta sumar.
„Það er óákveðið en mig langar að vera í fótbolta áfram en það þarf að ræða þetta með fjölskyldunni og svona og sjá hvað maður vill gera. Þannig allir séu sáttir og maður finnur fyrir því að það sé hægt að spila fótbolta og allir séu sáttir," sagði Aron Bjarki.