Íslenski landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu fyrir Panathinaikos er liðið vann 5-0 stórsigur á Panetolikos í grísku úrvalsdeildinni í dag.
Eftir erfitt landsliðsverkefni, þar sem hann fékk rauða spjaldið í 3-1 tapi gegn Lúxemborg, mætti Hörður aftur til Aþenu og lét landsleikinn ekkert á sig fá.
Hann var í vörn Panathinaikos í dag, spilaði allan leikinn og skoraði fimmta og síðasta mark leiksins með skalla.
Þetta var annað mark hans fyrir Panathinaikos frá því hann kom til félagsins á síðasta ári, en hans fyrsta á þessu tímabili.
Panathinaikos hefur unnið alla þrjá leiki sína í grísku úrvalsdeildinni á tímabilinu og ekki enn fengið á sig mark.
Elías Rafn Ólafsson stóð í marki Mafra í 2-1 tapi gegn Tondela í portúgölsku B-deildinni. Elías er á láni hjá Mafra frá danska félaginu Midtjylland.
Logi Tómasson kom inn af bekknum í 2-0 tapi Strömsgodset gegn Sandefjord í norsku úrvalsdeildinni. Ari Leifsson sat allan tímann á bekknum. Strömsgodset er í 10. sæti með 26 stig.
Patrik Sigurður Gunnarsson hélt þá hreinu er Viking vann Haugesund, 2-0. Þetta var í sjötta sinn á tímabilinu sem hann heldur hreinu, en Viking er á toppnum í deildinni með 48 stig.
Jökull Andrésson var þá í marki Carlisle sem gerði 1-1 jafntefli við Lincoln í C-deildinni á Englandi. Carlisle er með 7 stig í 18. sæti deildarinnar.
Athugasemdir