Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   mið 16. október 2024 22:41
Brynjar Ingi Erluson
Árni Guðna ráðinn þjálfari Fylkis (Staðfest)
Frá vinstri: Björn Viðar Ásbjörnsson, formaður meistaraflokksráðs, Árni Freyr Guðnason, nýr þjálfari Fylkis og Ragnar Páll Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar
Frá vinstri: Björn Viðar Ásbjörnsson, formaður meistaraflokksráðs, Árni Freyr Guðnason, nýr þjálfari Fylkis og Ragnar Páll Bjarnason, formaður knattspyrnudeildar
Mynd: Knattspyrnudeild Fylkis
Árni Freyr Guðnason hefur verið ráðinn nýr þjálfari karlaliðs Fylkis en knattspyrnudeild félagsins greinir frá ráðningunni í kvöld. Árni gerir þriggja ára samning við Fylki.

Á dögunum greindi Rúnar Páll Sigmundsson frá því að hann yrði ekki áfram hjá félaginu og fóru Fylkismenn beint í það að finna eftirmann hans.

Sú leit tók ekki langan tíma; Árni Freyr er mættur í brúnna. Eftir að hafa skrifað undir tveggja ára samning hjá ÍR fyrir mánuði síðan er hann mættur til Fylkis og skrifar þar undir þriggja ára samning.

Árni hefur náð stórkostlegum árangri hjá ÍR síðustu tvö ár. Hann kom liðinu upp í Lengjudeildina á síðasta ári og tókst svo að halda liðinu í baráttu um sæti í Bestu deildina í sumar, en liðið tapaði gegn Keflavík í undanúrslitum umspilsins.

Áður var hann yfirþjálfari yngri flokka hjá uppeldisfélagi sínu, FH.

Hann þekkir vel til hjá Fylki enda spilaði hann tvö tímabil með liðinu, árin 2012 og 2013. Þar skoraði hann 4 mörk í 26 leikjum í deild- og bikar.

„Það er mikill heiður fyrir mig að snúa aftur til Fylkis og að fá nú tækifæri til að þjálfa Fylkisliðið. Mitt mat er að það sé mjög mikið spunnið í liðið og með vinnusemi og metnað að leiðarljósi er ég sannfærður um að við munum skila góðri frammistöðu í framtíðinni. Hér í Árbænum eru aðstæður til fyrirmyndar og ég hlakka til að hefja störf fyrir Fylki,“ sagði Árni við undirskrift hjá Fylki í dag.

Fylkir féll á dögunum niður í Lengjudeildina en Árni, sem mun taka formlega við störfum í næsta mánuði, fær það verðuga verkefni að koma liðinu beint upp.
Athugasemdir
banner
banner