mið 17. maí 2023 12:00
Elvar Geir Magnússon
Eru ekki með annan sem getur gefið þeim sama og Gundogan
Ilkay Gundogan, miðjumaður Manchester City.
Ilkay Gundogan, miðjumaður Manchester City.
Mynd: Getty Images
Gundogan var fyrsti leikmaðurinn sem Guardiola fékk til City.
Gundogan var fyrsti leikmaðurinn sem Guardiola fékk til City.
Mynd: Getty Images
Líkur eru á því að Ilkay Gundogan eigi aðeins sex leiki eftir af ferli sínum hjá Manchester City. Samningur þessa 32 ára þýska miðjumanns rennur út í sumar og Barcelona vill fá hann.

Gundogan skoraði tvö frábær mörk gegn Everton um síðustu helgi en það fyrra var stórkostlegt sýnishorn af því hvað leikmaðurinn getur framkvæmt. Liðsfélagi hans, Kyle Walker, sagði að Gundogan hefði breyst í 'Zidane upp á sitt besta' að undanförnu.

Eftirminnilegt er þegar Gundogan var notaður sem 'fölsk nía' tímabilið 2020-21 og skoraði 14 mörk í 23 leikjum. Hann var kosinn fyrirliði liðsins þegar Fernandinho hvarf á braut og það segir sitt um mikilvægi hans.

„Ef Gundogan fer verður mjög erfitt að finna mann í hans stað. Það er engin furða að City hafi sterklega verið orðað við ensku landsliðsmiðjumennina Jude Bellingham og Declan Rice. Gundogan er ekki með sama íþróttamannslega útlit og þeir en í þessu tilfelli getur útlitið verið villandi," skrifar Simon Stone, íþróttafréttamaður BBC.

„Hann býr yfir ómetanlegri eðlishvöt fyrir því að vera á réttum stað á réttum tíma og er með fótboltaheila sem er fljótur að lesa hvernig aðstæður eru að þróast. City hefur einfaldlega ekki annan leikmann í hópnum í dag sem getur fært þeim það sama."

„Gundogan hefur sýnt að hann hefur enn fullt fram að færa. Hann er með yfirvegun á miðsvæðinu og auga fyrir sendingum sem stúta andstæðingnum. Hann veit hvenær á að auka hraðann, hvenær á að hægja á sér og veit hvar allir eru á vellinum hverju sinni. Leikmenn vilja að hann verði áfram og stuðningsmennirnir líka."

Gundogan var fyrsti leikmaðurinn sem Pep Guardiola keypti til Manchester City. Síðan eru liðnir 300 leikir og 58 mörk. Um miðjan júní gætu leikirnir verið orðnir 306, en mun sú tala verða hærri?

Í kvöld klukkan 19 mætast Manchester City og Real Madrid í seinni viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leikurinn á Spáni endaði 1-1.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner