Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist ekki hafa neitt til að sanna fyrir seinni leikinn gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Guardiola hefur ekki enn tekist að vinna Meistaradeildina við stjórnvölinn hjá Man City þrátt fyrir að hafa eitt sigurstranglegasta liðið á hverju ári.
Spánverjinn hefur verið gagnrýndur fyrir þetta en hann segir að City hafi ekki ráðið sig sérstaklega til að vinna Meistaradeildina.
„Það er ekki eins og mér hafi verið sagt þegar ég skrifaði undir samning fyrir sjö árum að markmiðið mitt væri að vinna Meistaradeildina. Allir voru sammála um að markmiðið var að gera eins vel og mögulegt var hverju sinni," sagði Guardiola. „Auðvitað getum við ekki neitað því að við höfum unnið ógrynni titla á tíma mínum hérna en ekki þennan. Auðvitað viljum við vinna þennan titil, við höfum oft komist nálægt því.
„Það er draumur að spila í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, við erum ótrúlega heppnir að vera hér og ég segi strákunum að njóta sín. Ég hef verið hérna oft áður, mín arfleifð í þessari keppni er nú þegar framúrskarandi," hélt Pep áfram, en hann vann Meistaradeildina við stjórnvölinn hjá Barcelona 2009 og 2011.
Man City var slegið úr undanúrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra gegn Real Madrid, en lærisveinar Ancelotti hafa unnið síðustu fimm andstæðinga sína í röð í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Það vekur athygli að allir þessir fimm andstæðingar eru úr enska boltanum.
Real sló Chelsea, City og Liverpool út í fyrra og er búið að sigra gegn Liverpool og Chelsea í ár.
Hægt er að búast við stórskemmtilegum leik þar sem Nathan Aké er eini leikmaðurinn á meiðslalista. Eduardo Camavinga er tæpur í liði Real Madrid, en ferðast með í útileikinn.
Liðin mætast í kvöld klukkan 19:00 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.
Sigurvegari kvöldsins mætir Inter í úrslitaleiknum.