Erling Haaland hefur raðað inn mörkum fyrir Manchester City en íþróttafréttamaðurinn Graham Ruthven segir að kaupin á svissneska varnarmanninum Manuel Akanji veiti samkeppni um bestu kaup tímabilsins hjá félaginu.
Þessi 27 ára leikmaður kom frá Borussia Dortmund síðasta sumar og margir bjuggust við því að hann yrði í vandræðum með að standast kröfur ensku úrvalsdeildarinnar.
„Guardiola sá hinsvegar leikmann sem gæti höndlað kröfur sínar varðandi leikstíl. Akanji hefur verið öryggisnet liðsins og hefur verið látinn verja svæði vinstra og hægra megin í varnarlínunni," segir Ruthven.
„Líkamlegir eiginleikar svissneska landsliðsmannsins gera honum kleift að taka yfir mikið svæði. Með boltann er hann líka nægilega tæknilega góður til að taka þátt í spilinu aftarlega. Það er þó leikgreind Akanji sem einkennir hann mest. Hann spilar stöðuna eins og hann hafi sinnt henni í mörg ár undir stjórn Pep Guardiola."
Akanji hefur 23 sinnum verið í byrjunarliðinu í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og spilaði allan leikinn í 1-1 jafnteflinu gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í síðustu viku. Liðin mætast aftur í kvöld í Manchester.
Athugasemdir