Man Utd heldur áfram að reyna við Dorgu, Neymar er til í að fórna launum til að komast til Santos og Aston Villa hefur áhuga á varnarmanni Chelsea
   mið 17. maí 2023 15:25
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Nacho með rifinn liðþófa og er á leið í aðgerð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nacho Heras, varnarmaður Keflavíkur, er á leið í aðgerð eftir að hafa meiðst á hné snemma leiks þegar HK var í heimsókn í Keflavík á laugardag. Nacho var sárþjáður og fluttur með sjúkrabíl frá vellinum.

Keflvíkingar hafa fengið niðurstöðu úr myndatöku og er sá spænski með rifinn liðþófa og brjóskskemmdir í hnénu. Óttast var að krossband hefði slitnað en niðurstaða úr þessari myndatöku bendir til þess að það hafi ekki gerst. En Nacho þarf þó, samkvæmt heimildum Fótbolta.net, að fara í aðra myndatöku þegar bólgur í hnénu hjaðna.

Nacho þarf að fara í aðgerð en ekki er búið að dagsetja hana. Í kjölfarið er áætlað að Nacho verði frá í þrjá mánuði.

Nacho er 31 árs Spánverji sem gekk í raðir Keflavíkur fyrir tímabilið 2020 eftir að hafa leikið með Víkingi Ólafsvík og Leikni tímabilin þar á undan. Hann er uppalinn hjá Real Madrid og Atletico Madrid og var um tíma á mála hjá Espanyol.

Hann hafði byrjað alla sjö leiki Keflavíkur á tímabilinu, verið fyrirliði í tveimur þeirra, og á alls að baki 124 deildarleiki hér á landi.

Sjá einnig:
Mikil meiðsli herja á Keflvíkinga - „Liðið ekki eins gott og í fyrra"
Athugasemdir
banner
banner