Enski landsliðsmaðurinn James Ward-Prowse var meðal bestu miðjumanna tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að spila fyrir botnlið Southampton.
Southampton er fallið niður í Championship deildina og þykir ljóst að félagið þarf að losa sig við hluta leikmannahópsins.
Ward-Prowse, sem er fyrirliði Southampton, er samningsbundinn félaginu til 2026 og metinn á um 35 milljónir punda. Southampton neyðist þó líklega til að selja hann í sumar vegna þeirra fjárhagsörðugleika sem geta fylgt því að falla niður um deild.
Þegar tölfræðin er skoðuð kemur í ljós að Ward-Prowse var meðal allra bestu miðjumanna úrvalsdeildarinnar þegar kemur að sköpuðum færum, sendingum, fyrirgjöfum og að fara fyrir sendingar andstæðinga.
Talið er að Ward-Prowse verði seldur á afsláttarverði í sumar en búist er við að Mislav Orsic verði fyrstur til að yfirgefa félagið, aðeins sex mánuðum eftir að hafa verið keyptur.