„Tilfinningin er geðveik. Þetta gerist ekki betra. Sérstaklega með litlu systur með. Það gerir þetta ennþá betra,“ svaraði Ásta Eir Árnadóttir aðspurð um tilfinninguna eftir sigurleik í úrslitum Mjólkurbikarsins.
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 2 Breiðablik
„Þetta var svolítið stressandi í endann en þetta var allan tímann okkar,“ bætti Kristín Dís Árnadóttir, yngri systir Ástu við áður en að Ásta hélt áfram:
„Maður vissi að bæði lið myndu vera svolítið sjeikí og stressuð í byrjun. Það var mjög gott að setja þessi tvö mörk í fyrri hálfleik. Síðan var þetta bara í okkar höndum og við kláruðum þetta vel.“
Blikar hafa ekki mikinn tíma til að fagna en þær eru í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og eiga leik strax á þriðjudag. Aðspurðar um hvernig fagnaðarlátunum yrði háttað svaraði Ásta:
„Bara svona easy going sko. Við fögnum aðeins í kvöld..“ Kristín Dís tók svo af henni orðið og sagði að það yrði æfing strax á morgun og leikur á þriðjudag.
Systurnar voru að lokum spurðar hvernig hefði verið að fara í mjólkurbað en bikarmeistararnir fögnuðu innilega með því að skvetta mjólk yfir hvora aðra.
„Ógeðslegt. Það er ógeðslega vond lykt af þessu og ég hata mjólk. Mér finnst mjólk ekki góð,“ var Kristín Dís fljót að svara.
Hægt er að horfa á allt viðtalið við systurnar í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir