Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
banner
   mán 18. apríl 2022 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pape spáir í fyrstu umferð Bestu deildarinnar
Pape Mamadou Faye.
Pape Mamadou Faye.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ætli Damir skori í fyrsta leik?
Ætli Damir skori í fyrsta leik?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsta umferðin í Bestu deild karla hefst í kvöld með opnunarleik Víkings og FH. Svo eru leikir á morgun og á miðvikudaginn.

Sóknarmaðurinn og skemmtikrafturinn Pape Mamadou Faye spáir í leiki fyrstu umferðar.

Víkingur R. 2 - 1 FH (19:15 í dag)
Þetta verður hörkuleikur. Bæði lið eru sterk og ætla sér að gera stóra hluti í sumar. Mínir menn í Víkingi taka þetta.

Valur 3 - 1 ÍBV (18:00 á morgun)
Þetta er annar leikur sem verður gaman að fylgjast með. ÍBV er lið sem er að koma upp og það fylgir því alltaf ákveðið pepp. Þetta verður erfiður leikur fyrir Val, en ef þeir mæta vel stemmdir til leiks þá eiga þeir að vinna miðað við þeirra hóp. Ég býst við að fyrri hálfleikur verði stál í stál en þegar líða fer á seinni hálfleik, þá held ég að Valur taki þetta í sínar hendur og klári þetta.

Stjarnan 2 - 1 ÍA (19:15 á morgun)
Ég býst við að þetta verði erfið ferð fyrir Skagamenn. Ég sé fyrir mér að Stjarnan verði betri en þeir voru í fyrra. Ég sá þessi lið spila í vetur og þar fannst mér Stjarnan vera sterkari frá A til Ö. Stjarnan vinnur aftur en minn maður Viktor Jóns skorar fyrir Skagamenn - sorry Viktor.

Breiðablik 3 - 0 Keflavík (19:45 á morgun)
Breiðablik hefur verið nálægt titlinum síðustu árin. Maður býst við að það sé hungur í mönnum að gera enn betur. Þetta er ungt og sterkt lið sem ætlar sér stóra hluti í sumar. Allt annað er ekki boðlegt í Kópavogi. Ég held að Keflvíkingar verði sáttir ef þeir halda sér uppi. Ég býst ekki við að þetta verði erfiður leikur fyrir Blika. Ég er ekki að segja að þeir séu að fara að labba í gegnum Keflavík, en ef þeir mæta og spila sinn leik þá verður þetta ekki mikið stress. Minn maður, Damir, skorar eitt eftir hornspyrnu.

KA 1 - 1 Leiknir R. (18:00 á miðvikudag)
Þessi leikur verður spilaður á Dalvík. Þetta verður löng ferð fyrir mína menn í Breiðholti, en ég held að Aron Fuego verði með græjurnar á leið norður og sjái til þess að þeir mæti vel stemmdir til leiks. En aftur á móti er KA með sín markmið og þetta verður mikill baráttuleikur.

Fram 1 - 2 KR (19:15 á miðvikudag)
Reykjavíkurslagurinn, tveir kóngaklúbbar að mætast í fyrsta leik. Þetta verður skemmtilegasti leikurinnn í umferðinni. Framarar hafa sýnt það síðustu árin að þeir eiga heima í efstu deild en hafa ekki verið sannfærandi í vetur. Það skiptir kannski ekki öllu málið þegar í sumarið er komið hvernig þú stendur þig á undirbúningstímabilinu. Við höfum séð lið brillera um veturinn og ekkert getað í Íslandsmótinu. Ég er spenntur að sjá Fram í sumar. Þetta er fyrsti leikur og því fylgir spenna, sérstaklega þegar þú ert nýkominn upp. KR er aftur á móti með skýrt markmið að berjast um titilinn. Ég held að þetta verði 1-1 fram á 70. mínútu og svo klára reynsluboltarnir úr Vesturbænum þetta.
Athugasemdir
banner
banner
banner