Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   mið 30. apríl 2025 20:59
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Sex marka jafntefli í ævintýralegum slag
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Barcelona 3 - 3 Inter
0-1 Marcus Thuram ('1)
0-2 Denzel Dumfries ('21)
1-2 Lamine Yamal ('24)
2-2 Ferran Torres ('38)
2-3 Denzel Dumfries ('64)
3-3 Yann Sommer ('66, sjálfsmark)

Ótrúlegum undanúrslitaleik var að ljúka í Barcelona, þar sem heimamenn tóku á móti Ítalíumeisturum Inter og úr varð svakaleg skemmtun.

Marcus Thuram tók forystuna fyrir gestina eftir 30 sekúndna leik þegar hann skoraði eftir vandræðagang í varnarleik Börsunga sem tókst ekki að hreinsa boltann burt. Thuram kláraði færið afar laglega þar sem hann notaði hælinn sinn til að leggja boltann snyrtilega í netið eftir fyrirgjöf frá Denzel Dumfries.

Dumfries átti heldur betur eftir að láta til sín taka í þessum slag því hann tvöfaldaði forystu Inter á 21. mínútu með magnaðri afgreiðslu í kjölfar hornspyrnu. Boltinn kom fljúgandi til Dumfries í því sem virtist afar óþægileg hæð, en bakvörðurinn sókndjarfi notaði fljúgandi karatespark til að ná til boltans og tvöfalda þannig forystuna.

Börsungar höfðu verið mikið með boltann og skapað nokkra hættu þegar Lamine Yamal minnkaði muninn með glæsilegu einstaklingsframtaki. Hann vann boltann eftir baráttu við Marcus Thuram, lék svo á varnarmann og slúttaði með glæsilegu skoti sem fór í stöngina og inn - óverjandi fyrir Yann Sommer.

Ferrán Torres jafnaði svo metin eftir gæðamikla sókn þar sem vörn Inter sofnaði aðeins á verðinum. Vippa innfyrir vörnina rataði beint á kollinn á Raphinha sem átti glæsilegan skalla til að leggja beint upp í hlaupaleiðina fyrir Torres sem skoraði auðvelt mark af stuttu færi.

Staðan var því orðin 2-2 þegar flautað var til leikhlés eftir verulega skemmtilegar 45 mínútur af fótbolta. Börsungar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Inter nýtti færin sín ótrúlega vel.

Síðari hálfleikurinn var talsvert jafnari en áfram héldu gestirnir í liði Inter að nýta færin sín vel. Dumfries kom þeim yfir á nýjan leik með skalla eftir hornspyrnu á 64. mínútu en aftur jöfnuðu Börsungar, aðeins tveimur mínútum síðar.

Í þetta skiptið átti Raphinha skot í slá, sem fór þaðan af bakinu á Sommer og lak í netið. Afar óheppilegt sjálfsmark fyrir Svisslendinginn en verðskuldað mark fyrir Börsunga.

Heimamenn áttu tvær marktilraunir sem hæfðu slána og þá setti Inter boltann í netið en ekki dæmt mark vegna mjög naumrar rangstöðu, en engum tókst að gera sigurmark. Lokatölur í Barcelona urðu því 3-3 og ríkir mikil spenna fyrir seinni leikinn í Mílanó.
Athugasemdir
banner