Kantmaðurinn knái Raphinha lék allan leikinn er Barcelona gerði 3-3 jafntefli gegn Inter í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.
Börsungar lentu tveimur mörkum undir snemma leiks en tókst að jafna fyrir leikhlé. Þeir lentu aftur undir í síðari hálfleik en jöfnuðu á ný og komust nálægt því að setja sigurmark, sem tókst þó ekki.
Sóknarleikur liðsins var magnaður gegn gífurlega sterku varnarliði Inter, en varnarleikur Börsunga var ekki upp á marga fiska.
„Okkur líður eins og við hefðum getað náð í betri úrslit en við verðum líka að hrósa Inter fyrir að hafa spilað sinn leik virkilega vel. Þeir eru mjög sterkir í hornspyrnum og sem betur fer tókst okkur að jafna eftir að þeir komust yfir. Við erum ennþá með í einvíginu fyrir seinni leikinn í Mílanó," sagði Raphinha við UEFA eftir lokaflautið.
„Þegar við lentum tveimur mörkum undir var mikilvægt að halda okkur rólegum og halda áfram að spila okkar leik. Við gerðum það og náðum að koma til baka.
„Yfir heildina litið þá kannski tókum við alltof mikið af áhættum í sóknarleiknum en það er útaf því að við vildum ólmir skora fleiri mörk til að vinna leikinn. Við vildum vinna heimaleikinn en þetta eru ekki verstu úrslit í heimi. Staðan er ennþá jöfn."
Raphinha átti flottan leik gegn Inter, þar sem hann lagði annað mark liðsins upp með laglegum skalla og átti svo frábært sláarskot sem fór í bakið á Yann Sommer markverði og endaði sem sjálfsmark.
Athugasemdir