Hamar leikur í 4. deild karla og var að styrkja sig með tveimur nýjum leikmönnum samkvæmt upplýsingum frá KSÍ.
Hvergerðingar eru búnir að krækja í miðjumanninn varnarsinnaða Hamdja Kamara sem kemur til liðsins frá Avigliano á Ítalíu.
Hamdja, sem á 32 ára afmæli í næstu viku, hefur áður leikið með Reyni Sandgerði, Dalvík/Reyni og KFK í íslenska boltanum.
Hann á í heildina 45 leiki að baki í 2. og 3. deild íslenska boltans og reynir núna fyrir sér í 4. deild í fyrsta sinn.
Brynjólfur Þór Eyþórsson er þá einnig kominn til félagsins. Hann kemur á láni frá nágrannaliði Ægis úr Þorlákshöfn.
Brynjólfur er fæddur 2001 og hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Ægis síðustu ár.
Brynjólfur spilaði 21 leik með Ægi í 2. deild í fyrra og var einnig í liðinu sumarið 2023 í Lengjudeildinni. Þar tókst honum að skora 4 mörk í 19 deildarleikjum.
Þetta er í annað sinn sem Brynjólfur gengur til liðs við Hamar. Hann skoraði 17 mörk í 16 leikjum þegar hann lék síðast með liðinu í 4. deild sumarið 2019.
Athugasemdir