Undanúrslit Sambandsdeildarinnar hefjast í kvöld þegar Chelsea heimsækir Djurgården til Svíþjóðar á meðan Albert Guðmundsson og félagar í liði Fiorentina kíkja til Spánar að spila við Real Betis.
Djurgården lagði Pafos og Rapid frá Vínarborg að velli til að komast í undanúrslitin, eftir að hafa meðal annars sigrað Víking R., Panathinaikos og Legia frá Varsjá í deildarkeppninni.
Svíarnir geta þó átt von á gríðarlega erfiðum leik þegar enska stórveldið Chelsea kíkir í heimsókn. Chelsea er búið að sigra gegn Legia og FC Kaupmannahöfn í útsláttarkeppninni eftir að hafa verið eina liðið til að fara í gegnum deildarkeppnina með fullt hús stiga - 18 stig úr 6 umferðum.
Fiorentina er þá komið í undanúrslitin eftir nauman sigur gegn NK Celje frá Slóveníu í síðustu umferð eftir að hafa slegið Panathinaikos út í umferðinni þar á undan á afar ósannfærandi máta.
Fiorentina hefur ekki unnið Evrópukeppni í um 60 ár þrátt fyrir gott gengi í Sambandsdeildinni á síðustu árum. Liðið hefur farið í tvo síðustu úrslitaleiki keppninnar í röð en tókst að tapa þeim báðum, fyrst gegn West Ham og svo Olympiakos.
Leikir kvöldsins:
19:00 Djurgarden - Chelsea
19:00 Real Betis - Fiorentina
Athugasemdir