
Amorim vill fullnýta krafta Zirkzee, Höjlund og Obi sem eiga enn eftir að finna taktinn hjá Manchester United.
Rúben Amorim þjálfari Manchester United svaraði spurningum á fréttamannafundi í dag fyrir leik Rauðu djöflanna gegn Athletic Bilbao í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.
Amorim staðfesti meðal annars að kantmaðurinn Amad Diallo og miðvörðurinn Matthijs de Ligt verða báðir liðtækir og munu því líklegast koma við sögu.
Hann var einnig spurður út í áform Man Utd á leikmannamarkaðinum, hvort félagið ætlaði sér að kaupa Viktor Gyökeres frá Sporting CP - fyrrum lærling Amorim.
„Ég er ekki búinn að ræða við Viktor um þetta en ég vil bara leikmenn hingað sem vilja spila fyrir treyjuna. Við viljum fá inn leikmenn sem þrá að spila fyrir Manchester United. Við viljum ekki fá leikmenn sem koma hingað bara til að spila í Meistaradeildinni," sagði Amorim og hélt áfram.
„Markmiðið okkar er að hjálpa þeim leikmönnum sem eru hjá félaginu að bæta sig. Rasmus (Höjlund) skoraði í síðasta leik og það er augljóst að hann er með gæðin sem þarf. (Joshua) Zirkzee er líka með gæðin og Chido Obi. Við þurfum að koma þeim í rétt stand til að fullnýta þeirra hæfileika."
Athugasemdir