
Víkingar héldu titilvörn sinni áfram í Mjólkurbikarnum þetta árið er liðið mætti Gróttu á heimavelli hamingjunar fyrr í dag. Lokatölur í leiknum urðu 2-1 Víkingum í vil sem þurftu þó að hafa fyrir hlutunum gegn sprækum Seltirningum. Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga var til viðtals að leik loknum.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 1 Grótta
„Mér fannst þetta vera frábær leikur. Þetta er áskorun sem við fáum ekki á hverjum degi. Lið sem kemur og hleypur og hleypur allan leikinn og pressar og pressar. Ég sagði við strákanna í hálfleik að þetta væri hrikalega gaman og þetta væri áskorun sem menn þyrftu að taka með bros á vör.“ Sagði Arnar um sitt álit á leiknum.
Víkingar stilltu upp nokkuð léttu byrjunarliði ef svo má að orði komast og lykilmenn eins og Nikolaj Hansen og Matthías Vilhjálmsson voru annaðhvort á varamannabekknum eða utan hóps. Vel að merkja þurftu Víkingar að hafa nokkuð fyrir öllum sínum aðgerðum í leiknum. Um það sagði Arnar.
„Þetta var náttúrulega bara maður á mann úti um allan völl og þegar það er þannig þá ertu bara að vinna þína leikstöðu. Þetta eru allt öðruvísi leikir en við erum vanir og við þuftum að finna lausnir sem voru ekkert endilega í boði á töflufundi fyrir leikinn. “
Þau gleðitíðindi voru fyrir Víkinga voru í leiknum að Ari Sigurpálsson sneri aftur á völlinn eftir meiðsli sem hafa haldið honum utan vallar um hríð en hann lék síðustu 10 mínútur leiksins. Ari tjáði fréttaritara í óformlegu spjalli eftir leik að hann væri búinn á því eftir þessar mínútur en Arnar sagði um Ara.
„Þetta hafa verið erfið meiðsli og erfiður tími fyrir hann og hefur verið erfitt andlega líka. Hann fékk bakslag og þurfti að byrja aftur og ekkert vanur að lenda í svona erfiðum meiðslum svona ungur. Þetta er próf fyrir hann andlega og hann er búinn að vera virkilega duglegur í sinni endurhæfingu og vonandi getum við farið að bæta á hann fleiri mínútum.“
Sagði Arnar en allt viðtalið við hann þar sem farið er um víðan völl má sjá hér að ofan
Athugasemdir