
Chelsea hefur verið á ansi góðu skriði í úrvalsdeild kvenna á Englandi upp á síðkastið en liðið skellti sér upp fyrir Manchester United á toppi deildarinnar í gær.
Chelsea heimsótti West Ham í gær og vann þar mjög sannfærandi 0-4 sigur.
Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir var í byrjunarliði West Ham og lék rúman klukkutíma. West Ham er í áttunda sæti og siglir lygnan sjó.
Það eru tvær umferðir eftir af deildinni og er Chelsea með tveggja stiga forskot á United. Þessi lið mættust í úrslitum enska bikarsins á dögunum og þar hafði Chelsea betur, 1-0. Spurning er hvort Lundúnafélagið muni hafa aftur betur í deildinni en það verður spennandi að sjá.
Arsenal vann þá 1-4 sigur gegn Everton í gær og situr í þriðja sæti, fimm stigum á eftir Chelsea.
Chelsea er ríkjandi meistari á Englandi. Chelsea á eftir að mæta Arsenal og Man Utd á eftir að mæta nágrönnum sínum í Man City. Verða það líklega úrslitaleikir í þessari áhugaverðu titilbaráttu.
Athugasemdir