
Það voru gríðarlega óvænt úrslit sem litu dagsins ljós í Mjólkurbikar karla í dag þar sem Lengjudeildarlið Grindavíkur kíkti í heimsókn á Origo völlinn við Hlíðarenda.
Grindvíkingar heimsóttu Val og sýndu frábæra spilamennsku í sögulegum sigri þar sem varnarlínan steig varla feilskref.
Þeir tóku forystuna á 32. mínútu, þegar Viktor Guðberg Hauksson slapp innfyrir vörn heimamanna og skoraði framhjá Frederik Schram. Átta mínútum síðar tvöfaldaði Bjarki Aðalsteinsson forystuna eftir hornspyrnu.
Valsarar tóku völdin á vellinum í síðari hálfleik en áfram hélt varnarlína Grindvíkinga og voru það gestirnir sem bættu þriðja markinu við þvert gegn gangi leiksins. Þar var á ferðinni kempan Óskar Örn Hauksson sem skoraði mögulega fallegasta mark íslenska fótboltasumarsins.
Óskar Örn sýndi flotta takta til að leika á andstæðing á eigin vallarhelmingi áður en hann leit upp og sá að Frederik var kominn langt af marklínunni. Óskar gerði sér lítið fyrir og lét vaða úr miðjuhringnum svo boltinn endaði í netinu.
Tryggvi Hrafn Haraldsson minnkaði muninn fyrir Val undir lokin en það dugði ekki til. Sögulegur sigur Grindavíkur á Origo vellinum er staðreynd.
Valur 1 - 3 Grindavík
0-1 Viktor Guðberg Hauksson ('32)
0-2 Bjarki Aðalsteinsson ('40)
0-3 Óskar Örn Hauksson ('74)
1-3 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('90)
Stjarnan rúllaði þá yfir Keflavík í efstudeildarslag þar sem sigur Garðbæinga virtist aldrei í hættu. Adolf Daði Birgisson kom Stjörnunni yfir eftir slæm mistök hjá Daníeli Gylfasyni snemma leiks og var aðeins eitt lið á vellinum.
Stjörnumenn tvöfölduðu forystuna þegar Ísak Andri Sigurgeirsson átti frábæra fyrirgjöf inn á teiginn sem Gunnlaugur Fannar Guðmundsson reyndi að bjarga. Það tókst ekki nógu vel, þar sem Gunnlaugur endaði á að tækla boltann í eigið net.
Eggert Aron Guðmundsson og Emil Atlason gerðu út um viðureignina með mörkum í seinni hálfleik og niðurstaðan sannfærandi fjögurra marka sigur.
Stjarnan 4 - 0 Keflavík
1-0 Adolf Daði Birgisson ('16)
2-0 Gunnlaugur Fannar Guðmundsson ('40, sjálfsmark)
3-0 Eggert Aron Guðmundsson ('65)
4-0 Emil Atlason ('81)