Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mið 18. október 2023 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ian Jeffs: Það félag sem sýndi alvöru áhuga á að fá mig í starf
Ian Jeffs er nýr þjálfari Hauka.
Ian Jeffs er nýr þjálfari Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samningur handssalaður.
Samningur handssalaður.
Mynd: Hulda Margrét
Haukar fagna marki í sumar.
Haukar fagna marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jeffsy kom Þrótti upp úr 2. deild og hélt liðinu uppi í Lengjudeildinni.
Jeffsy kom Þrótti upp úr 2. deild og hélt liðinu uppi í Lengjudeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukar enduðu í sjöunda sæti 2. deildar í sumar.
Haukar enduðu í sjöunda sæti 2. deildar í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er mjög spenntur að byrja. Ég er byrjaður að heyra í leikmönnum og er að koma mér fyrir þarna. Það gengur bara vel. Mér líst mjög vel á þetta," segir Ian Jeffs, nýráðinn þjálfara Hauka, í samtali við Fótbolta.net.

„Ég var að leita að nýju starfi og Haukar sýndu rosalega mikinn vilja að fá mig hingað. Það er þægilegt fyrir mig að ég bý nálægt og er í hverfinu. Að koma í Hauka er spennandi tækifæri fyrir mig."

Íslenski Englendingurinn hætti með Þrótt eftir nýafstaðið tímabil og ákvað leita á önnur mið. Jeffs tók við liði Þróttar haustið 2021 og kom liðinu síðan upp í Lengjudeildina ári síðar. Í síðasta mánuði tryggði liðið sér áframhaldandi veru í Lengjudeildinni er það hafnaði í áttunda sæti með 26 stig.

„Mér fannst þetta vera rétti tíminn fyrir mig að stíga til hliðar. Eins og kom fram í yfirlýsingunni þá labba ég frá þessu mjög stoltur. Ég skrifaði undir þriggja ára samning, ég nýtti ákvæði í samningnum og klára því ekki þriðja árið. Ég vildi frekar ganga í burtu núna, stoltur af því sem ég gerði sem þjálfari liðsins. Ég hafði á tilfinningunni að næsta ár yrði aðeins erfiðara, ég er búinn að finna fyrir smá togstreitu - þó ekki mikið. Mér fannst þetta bara rétti tímapunkturinn til að stíga til hliðar," sagði Jeffs í samtali við Fótbolta.net á dögunum

Horfi alls ekki á þetta sem skref niður
En er það skref aftur á bak að taka við Haukum í 2. deild?

„Ég hætti hjá Þrótti og það var mín ákvörðun. Það voru ekki mörg lið í Lengjudeildinni sem voru að breyta. Ég horfi á þetta þannig að þetta var besta tækifærið fyrir mig sem var í boði. Ég horfi alls ekki á þetta sem skref niður eða þannig. Ég horfi á þetta sem skref til hliðar. Ég fæ tækifæri til að byggja þetta lið upp og koma því á þann stað sem það vill vera á. Það er Lengjudeildin," segir Jeffs.

Jeffsy, eins og hann er oftast kallaður, var orðaður við nokkur félög eins og Þór á Akureyri, Selfoss og kvennalið Breiðabliks. Hann segir Hauka hafa sýnt sér mestan áhuga.

„Nei, í rauninni var ekki margt í gangi þó það sé margt skrifað um mig. Ég talaði aldrei við Þór og ég veit ekki hvaðan það kom. Breiðablik, kvennaliðið, ég var aldrei í sambandi við þau. Það var ekki mikið í gangi. Haukar voru það félag sem sýndi alvöru áhuga á að fá mig í starf. Ég er mjög þakklátur fyrir þeirra vilja og áhuga að fá mig hingað. Þau lögðu mikið á þetta og ég var spenntur frá fyrsta fundi," segir Jeffsy.

Vonbrigði síðustu ár
Haukar féllu í 2. deild 2019 og enduðu í fimmta sæti á sínu fyrsta tímabili í deildinni eftir fallið. En síðan þá hafa Haukar tvisvar lent í níunda sæti og einu sinni í sjöunda sæti. Jeffsy, sem var áður þjálfari hjá ÍBV og aðstoðarþjálfari hjá kvennalandsliðinu, stefnir á að byggja upp öflugt lið næstu árin. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Hauka.

„Haukar eru félag sem vill vera í deild fyrir ofan og helst að byggja þetta upp þannig að þeir geti einhvern tímann á næstu árum verið í Bestu deildinni. Þetta tekur tíma," segir Jeffsy.

„Við þurfum að fara vel yfir allt núna, leikmannamál og hvernig við hugsum þetta til að byggja félagið upp. Félagið vill komast upp en það þarf að púsla þessu rétt saman. Það er það sem við erum að vinna í. Þetta tekur tíma og við erum að reyna að fara vel yfir þetta allt saman. Við ætlum að búa til gott þjálfarateymi og gott lið sem getur stefnt í efri hluta deildarinnar. Það er okkar metnaður."

„Ég sé alveg frábæra möguleika í þessu. Það er allt á uppleið hérna. Það er verið að byggja frábært fótboltahús sem verður komið upp á næstunni. Þetta er hverfi sem er að stækka og það eru spennandi tímar framundan. Þrátt fyrir að það hafi ekki gengið eftir væntingum síðustu tvö, þrjú og fjögur ár þá horfi ég á þetta sem frábært tækifæri; að taka þátt í uppbyggingu Hauka á næstu árum. Vonandi getum við reynt að koma þessu félagi á þann stað sem það vill vera á."

Ætti að hjálpa eitthvað
Jeffsy er með reynslu af því að koma liði upp úr 2. deild og það ætti að geta hjálpað Haukum.

„Jú, það ætti að hjálpa eitthvað. En þetta er drulluerfið deild og maður þarf að hafa fyrir hlutunum. Ég þarf að neyta mína reynslu frá tímabilinu sem ég var með Þrótti í 2. deild. Ég mun nýta þá reynslu fyrir næsta tímabil."

„Við þurfum fyrst og fremst að búa til sterkt lið, sterkan kjarna og fá góða leikmenn inn til að styrkja þetta. Við þurfum að búa til gott fótboltalið og reyna að fá fleiri góða leikmenn upp úr yngri flokka starfinu. Við þurfum að búa til góða blöndu af heimamönnum og aðkomumönnum. Það verður virkilega spenanndi."

Að lokum var hann spurður út í sitt þjálfarateymi. Er komin einhver mynd á það?

„Nei, við erum að vinna í því. Það eru nöfn á borðinu og ég er að skoða það. Við erum að vinna í því að búa til gott þjálfarateymi með mikinn metnað. Við ætlum að sýna það að Haukar eru að leggja metnað í meistaraflokksstarfið og við viljum vera þekkt fyrir það," sagði Jeffs.
Athugasemdir
banner
banner
banner