Ég sé fyrir mér að næsta skref fyrir Þrótt sé að halda áfram á þessari braut og ekki reyna gera hlutina of hratt.
„Þetta kom fyrst upp í ágúst, ég settist niður með stjórninni og sagði að ég myndi líklega stíga til hliðar eftir tímabilið. Ákvörðunin var samt ekki tekin fyrr en eftir síðasta leikinn. Þá fór ég af fyrra bragði til stjórnarinnar, fundaði með stjórn á mánudagskvöldinu. Þetta var því ekki eitthvað sem kom alveg óvænt," sagði Ian Jeffs um viðskilnaðinn við Þrótt. Hann ákvað að stíga til hliðar eftir tvö ár hjá félaginu og var það tilkynnt á þriðjudagskvöld í síðustu viku.
Jeffsy, eins og hann er oftast kallaður, býr í Hafnarfirði og er íþróttakennari í Skarðshlíðarskóla. Hann hefur kennt meðfram þjálfuninni hjá Þrótti, gerði það líka síðasta vetur.
Hann er fertugur Englendingur sem kom til Íslands árið 2003 og spilaði með ÍBV, Fylki, Val og KFS á sínum ferli. Sem þjálfari hefur hann þjálfað kvennalið ÍBV, verið aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, þjálfað karlalið ÍBV og svo síðast lið Þróttar.
Jeffsy, eins og hann er oftast kallaður, býr í Hafnarfirði og er íþróttakennari í Skarðshlíðarskóla. Hann hefur kennt meðfram þjálfuninni hjá Þrótti, gerði það líka síðasta vetur.
Hann er fertugur Englendingur sem kom til Íslands árið 2003 og spilaði með ÍBV, Fylki, Val og KFS á sínum ferli. Sem þjálfari hefur hann þjálfað kvennalið ÍBV, verið aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, þjálfað karlalið ÍBV og svo síðast lið Þróttar.
En af hverju er hann að kalla þetta gott hjá Þrótti?
„Mér fannst þetta vera rétti tíminn fyrir mig að stíga til hliðar. Eins og kom fram í yfirlýsingunni þá labba ég frá þessu mjög stoltur. Ég skrifaði undir þriggja ára samning, ég nýtti ákvæði í samningnum og klára því ekki þriðja árið. Ég vildi frekar ganga í burtu núna, stoltur af því sem ég gerði sem þjálfari liðsins. Ég hafði á tilfinningunni að næsta ár yrði aðeins erfiðara, ég er búinn að finna fyrir smá togstreitu - þó ekki mikið. Mér fannst þetta bara rétti tímapunkturinn til að stíga til hliðar."
Var með sína skoðun og stjórnin með aðra
Af hverju ræddiru við stjórnina í ágúst þegar Þróttur var í fallbaráttu?
„Það kemur alltaf ýmislegt upp yfir tímabilið, það koma góðir kaflar og slæmir kaflar. Það er hluti af tímabilinu, sérstaklega hjá nýliðum eins og við vorum. Ég var meðvitaður um að það yrði mótlæti á tímabilinu og það kom alveg. Ég var samt allan tímann með fulla trú á því að við myndum halda okkur í deildinni."
„Það kom fyrst upp í kringum gluggann, ég og stjórnin vorum ekki alveg sammála hvernig við vildum gera hlutina. Ég var með mína skoðun og stjórnin með sína. Við fundum lausn og mér fannst við leysa þetta ágætlega."
„Við enduðum tímabilið vel, fengum ellefu stig í síðustu sjö leikjunum sem sýndi að við vorum komnir á gott ról. Það var miðjukaflinn, júlí, sem var erfiður; unnum ekki leik."
„Heilt yfir er ég virkilega ánægður með þessi tvö ár, gerum allt sem ég var að vonast eftir. Fórum beint upp í fyrra og héldum sætinu svo í deildinni núna þrátt fyrir að Lengjudeildin var mjög erfið í ár. Deildin var mjög jöfn og við erum að halda okkur uppi í síðustu umferðinni og endu með 26 stig. Það sýnir að þetta var mjög erfið deild. Ég er virkilega ánægður með árangurinn og mjög þakklátur fyrir tækifærið."
„Þjálfarateymið sem ég vann með á mikið hrós skilið fyrir allt sem það gerði til að hjálpa liðinu."
Það kemur alltaf eitthvað upp
Hvernig er að vera þjálfari hjá Þrótti? Gekk þetta allt nokkuð smurt fyrir sig á þessum tveimur árum?
„Það gekk mjög vel. Þegar þú þjálfar meistaraflokkslið þá kemur alltaf eitthvað upp, þú þjálfar ekki í tvö ár og það kemur aldrei neitt upp. Það koma stundum ákvarðanir sem eru teknar, ákvarðanir sem þú ert annað hvort ánægður með eða ekki ánægður með. Það er bara hluti af þessu. En ef ég horfi heilt yfir þá var þetta mjög jákvætt og gott. Ég hef ekkert slæmt að segja um Þrótt og er mjög þakklátur fyrir tækifærið. Mér finnst ég hafa borgað traustið til baka með góðum árangri síðustu tvö ár."
Ætlar að halda áfram að þjálfa
Hvað tekur við hjá Ian Jeffs? Vonastu eftir símtali frá öðru félagi núna í haust eða viltu taka þér hlé frá þjálfun?
„Ég er ekki búinn að hugsa of mikið um framhaldið, fannst bara tímapunkturinn réttur að stíga frá þessu verkefni. Ég var ekki með neitt í hendi og ekki að taka þessa ákvörðun vegna þess að ég var kominn með eitthvað annað. Ég vinn alltaf þannig að ef ég finn að tíminn til að stíga til hliðar er réttur þá geri ég það."
„Eins og staðan er núna í dag þá ætla ég mér að halda áfram að þjálfa. Það er bara spurning hvort það komi upp eitthvað spennandi eða ekki. Ég er ekki að stressa mig, er ekki að fara taka ákvörðun núna á næstu dögum. Ég tek smá tíma núna og sé hvað gerist. Það kemur í ljós hvað verður," sagði Jeffsy.
Búinn að fá símtöl en tekur enga skyndiákvörðun
Ertu búinn að fá eitthvað símtal?
„Já, ég er búinn að fá einhver símtöl, einhverjir sem hafa sett sig í samband við mig. Ég hef svarað því þannig að ég er ekki tilbúinn að taka neina ákvörðun og mun ekki gera það strax. Ég tek enga skyndiákvörðun núna með mitt næsta skref. Þetta verður gert í rólegheitum og vonandi kemur eitthvað spennandi upp. Ég fylgi því ef það verður, ef það kemur ekki þá held ég bara áfram kenna íþróttir og verð ánægður í því."
Langtímaverkefni í gangi
Jeffsy talar um að hann hafi fundið á sér að næsta tímabil hjá Þrótti hefði orðið erfiðara. Hvað finnst honum að Þróttur þurfi að gera til að taka næsta skref, komast nær liðunum fyrir ofan sig í deildinni.
„Ég held að Þróttur horfi á verkefnið áfram sem langtímaverkefni. Ég upplifði þessi tvö ár sem fyrsta stig af uppbyggingarverkefni. Ég vissi að Þróttur vildi fara upp úr 2. deild, vildi ekki hanga lengi þar. Við vorum heppnir að búa til gott lið og fara upp aftur í Lengjudeildina á fyrsta ári. Svo vorum við að fækka útlendingum, fá fleiri heimamenn og uppalda Þróttara í liðið. Það tókst, ef horft er í leikina í sumar þá vorum við nánast alltaf með 4-7 uppalda stráka í byrjunarliðinu sem er virkilega gott. Ef horft er í hópana á leikdegi voru þetta allt frá 7 og upp í 12 uppaldir í hópnum."
„Þróttarar vilja held ég byggja ofan á þetta. Ég sé fyrir mér að næsta skref fyrir Þrótt sé að halda áfram á þessari braut og ekki reyna gera hlutina of hratt. Ég hef fulla trú á því að Þróttur geri það," sagði Jeffsy að lokum.
Athugasemdir