Cunha og Sane orðaðir við Arsenal - Gabriel til Sádi? - Mainoo gæti farið og Bellingham komið - Isak fær væna launahækkun
banner
   mið 19. mars 2025 19:15
Elvar Geir Magnússon
Pristina
Arnar Gunnlaugs fyrir sinn fyrsta leik: Get ekki beðið eftir að hann byrji
Icelandair
Arnar á æfingu landsliðsins í morgun.
Arnar á æfingu landsliðsins í morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson á fréttamannafundi í Kósovó.
Arnar Gunnlaugsson á fréttamannafundi í Kósovó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið flaug til Kósovó í dag og fyrsta verkefni Arnars Gunnlaugssonar landsliðsþjálfara eftir lendingu var að fara á fréttamannafund á keppnisvellinum, þar sem fyrri leikur Kósovó og Íslands verður spilaður á morgun.

Arnar er mjög spenntur fyrir sínum fyrsta leik.

„Þetta er stórt, þetta er mikill heiður. Ég er mjög stoltur. Þetta er keppnisleikur, mitt fyrsta verkefni. Ég er mjög ánægður með þessa daga sem við höfum verið saman, það hefur verið mikið af upplýsingum. Strákarnir hafa verið frábærir, æfingarnar góðar og fundirnir líka," segir Arnar.

„Við erum að reyna að fikra okkur áfram. Þetta er núllpunktur og við erum að reyna að hefja nýja vegferð. Gera einhverja nýja hluti en halda í það sem var vel gert í gamla daga. Þetta mun taka tíma en ég er mjög meðvitaður um að við þurfum úrslit til að halda okkar status í B-deildinni. Maður er spenntur og getur varla beðið eftir að leikurinn byrji."

Ætlum að vera góðir í öllu
Miklar vangaveltur hafa verið meðal sparkspekinga um mögulega taktík og byrjunarlið hjá Arnari. Við hverju mega íslenskir fótboltaáhugamenn eiga von á morgun?

„Það er mikið orkustig. Við vorum að fara yfir það á fundi hvað við ætlum að skilgreina okkur sem. Það er það sama og góð lið gera, bara vera góðir í öllu. Kósovó er með góða leikmenn, þetta er sýnd veiði en ekki gefin. Ef við verðum í einghverju rugli þá munu þeir refsa okkur, sérstaklega hérna þegar þeir eru á heimavelli. Við þurfum að kunna allar hliðar. Við munum pressa hátt þegar það á við og við munum verjast lágt þegar við þurfum."

„Fólk mun vonandi sjá hvað við erum að gera. Það er mikilvægt fyrir mig og teymið að það verði framfarir og ljós í göngunum sem gefa til kynna hvert við erum að fara. Svo kemur næsti leikur og þá verði enn meiri framfarir. Það verða líka mistök en við ætlum að halda í eitthvað svo við verðum klárir í haust," segir Arnar og er þar að vísa í undankeppni HM.

Gætu kallað inn menn fyrir seinni leikinn
Mikael Anderson getur ekki tekið þátt í komandi leikjum vegna meiðsla og þá er ljóst að Valgeir Lunddal verður fjarri góðu gamni í fyrri leiknum. Enginn hefur verið kallaður inn í hópinn en Arnar segir það geta breyst fyrir seinni leikinn, sem verður á sunnudag.

„Ekki fyrir leikinn á morgun en við útilokum ekki að kalla inn eftir leikinn. Það eru nokkrir á hættu að fá leikbann og maður veit ekki hvað gerist með meiðsli, við áskiljum okkur rétt til að kalla inn einhverja leikmenn ef á þarf að halda," segir Arnar.

Þetta er bara allt annar leikur
Arnar hrósar nýju samstarfsfólki sínu og er mjög ánægður með alla fagmennsku í kringum verkefnið.

„Það er fagmannlega að öllu staðið hjá knattspyrnusambandinu og þessi ferð búin að opna augun mín verulega hvað eru mörg smáatriði sem þarf að vinna í og allt gengur eins og smurð vél. Það er starfsfólk sem kann sitt fag og lætur mér líða eins og ég hafi verið meðal þeirra í mörg ár. Strákarnir hafa svo tekið mér mjög vel. Svo byrjar leikurinn og þá þarf að ná í úrslit en hingað til hefur þetta verið geggjað," segir Arnar og segir að umgjörðin sé allt öðruvísi en þegar hann spilaði fyrir landsliðið.

„Við erum með einherjar 80 töskur með okkur en þegar ég var að spila var bara ein taska og maður þurfti að halda á henni sjálfur. Þetta er bara allt annar leikur, það er bara eins og risastórt fyrirtæki að spila einn landsleik. Ég vona að leikmenn skynji hversu vel er hlúð að þeim til að þeir geti sinnt sínu starfi og við gerum allt til að hjálpa þeim inni á vellinum. Þeir sinna svo erfiðasta starfinu sem er að skila úrslitum fyrir okkar þjóð."

Leikur Kósovó og Íslands hefst 19:45 annað kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner