Jóhann Berg Guðmundsson flaug til Sádí-Arabíu en hann mun skrifa undir samning þar á næstu dögum.
Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is, greinir frá því að Jóhann Berg sé á leið til Al-Orobah FC en Hörður og Jóhann eru góðir vinir.
Þessar fréttir koma eins og þruma úr heiðskíru lofti þar sem íslenski landsliðsmaðurinn endursamdi við Burnley í sumar og skoraði í öruggum 5-0 sigri liðsins gegn Cardiff um helgina.
Al-Orobah er nýliði í efstu deild í Sádí-Arabíu. Þekktasta nafnið í liðinu er Vurnon Anita, en hann hefur leikið með Ajax og Newcastle á sínum ferli.
Átta ára veru Jóhanns hjá Burnley er því að ljúka en hann er annar Íslendingurinn sem mun leika í Sádí-Arabíu því Sara Björk Gunnarsdóttir samdi við Al Qadsiah í kvenna deildinni fyrr í þessum mánuði.