Nuno Espirito Santo, stjóri Nottingham Forest, býst við því að það verði mikill áhugi á leikmönnum liðsins eftir að liðinu tókst að halda sæti sínu í deildinni.
Liðið fagnaði 2-1 sigri á Burnley í gær sem varð til þess að liðið hélt sæti sínu í deildinni. Það verður sennilega nóg að gera hjá félaginu í sumar þar sem liðið þarf að selja leikmenn til að koma í veg fyrir að fá aðra refsingu fyrir brot á fjármálareglum.
Morgan Gibbs-White og Murillo hafa m.a. verið orðaðir í burtu frá félaginu.
„Maður veit aldrei í fótbolta. Maður verður að átta sig á því að miðað við hvernig við enduðum tímabilið þá mun klárlega vera einhver áhugi á leikmönnunum," sagði Santo.
„Þeir eru mjög hæfileikaríkir, ungir og á hátindi ferilsins. Maður hefur enga stjórn á þessu. Maður verður bara að sjá til hvað gerist."
Fjögur stig voru dregin af liðinu á tímabilinu og þarf liðið að græða pening áður en félagaskiptaglugginn opnar til að koma í veg fyrir frekari refsingu.