Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins í handbolta, stal fyrirsögnunum í gær þegar Ísland vann stórgóðan sigur á Slóveníu á HM í handbolta.
Viktor varði 18 skot í leiknum og var aðalmunurinn á liðunum. Hann sýndi það þarna að hann er einn besti handboltamarkvörður í heimi.
Viktor varði 18 skot í leiknum og var aðalmunurinn á liðunum. Hann sýndi það þarna að hann er einn besti handboltamarkvörður í heimi.
En Viktor Gísli ætlaði sér fyrst að verða fótboltamaður þegar hann var yngri.
Í marsmánuði 2007 var skrifuð skemmtileg grein í Morgunblaðið um gutta í 7. flokki Fram sem voru á æfingu í þá nýjum heimakynnum félagsins í Ingunnarskóla í Grafarholti. Viktor Gísli var þar sex ára og ákveðinn í að verða fótboltamarkvörður.
„Af því ég er bara svo góður," sagði Viktor Gísli hreinskilinn um það af hverju hann vildi verða fótboltamarkvörður. Hann var bara það góður.
Viktor var þarna nýbúinn að fá Liverpool markmannsbúning og sagðist líta upp til Jose Reina, sem var þá einmitt markvörður í Liverpool.
Færðist framar á völlinn
Viktor Gísli æfði upp alla yngri flokkana með Fram og lék sinn síðasta skráða fótboltaleik 2016 með 2. flokki.
Hann virðist eitthvað hafa færst framar á völlinn eftir því sem leið á fótboltaferilinn en sumarið 2013 skoraði hann átta mörk í ellefu leikjum með A-liði Fram í 4. flokki. Framliðið tapaði ekki leik það sumarið í B-riðlinum og enduðu efstir. Viktor var á meðal markahæstu manna en Helgi Guðjónsson, sem spilar í dag með Víkingi, skoraði 42 mörk og var langmarkahæstur í riðlinum.
Viktor var þarna lykilmaður í liði sem innihélt ekki bara Helga, heldur líka Unnar Stein Ingvarsson, Már Ægisson, Magnús Þórðarson og Harald Einar Ásgrímsson sem eiga allir leiki í Bestu deildinni. Þeir hafa allir gert það gott á einhverjum tímapunkti með meistaraflokki Fram.
Viktor Gísli valdi á endanum handboltann og er ekki annað hægt að segja en að það hafi verið góð ákvörðun. Hann er í gríðarlegu uppáhaldi hjá íslensku þjóðinni sem slíkur.
Viktor Gísli og félagar hans í íslenska handboiltalandsliðinu halda áfram leik á HM á morgun er þeir mæta Egyptalandi í mikilvægum leik. Eftir þessi frábæru úrslit í gær eru ágætis möguleikar á því að liðið muni spila um medalíu á mótinu sem væri virkilega skemmtilegt.
Athugasemdir