Danski varnarmaðurinn Morten Ohlsen hefur ekki spilað með Vestra síðan í byrjun apríl. Hann byrjaði fyrsta deildarleik tímabilsins gegn Fram en fór þar meiddur út af.
Morten, sem var lykilmaður í liði Vestra í fyrra þegar liðið fór upp, var í liðsstjórn í gær þegar Vestramenn töpuðu 1-4 gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings.
Eftir leik var Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, spurður að því hvernig staðan á Morten væri.
„Ég veit bara ekki alveg tímasetninguna á Morten. Þetta hefur verið svolítið sérstakt," sagði Davíð Smári.
„Við höldum að hann sé að verða góður og svo kemur bakslag. Við erum með leikmenn sem geta leyst þessar stöður og hafa gert það prýðilega. Hvenær Morten kemur til baka, ég get ekki svarað því."
Andri Rúnar Bjarnason var þá ónotaður varamaður í gær en hann stífnaði upp í kálfa og engar áhættur voru teknar með hann.
Athugasemdir