Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 21. júlí 2022 16:43
Fótbolti.net
Takk Hallbera - „Algjör goðsögn í íslenskum fótbolta"
Icelandair
Hallbera Guðný Gísladóttir.
Hallbera Guðný Gísladóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Goðsögn í íslenskum fótbolta.
Goðsögn í íslenskum fótbolta.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallbera er búin að spila sinn síðasta landsleik.
Hallbera er búin að spila sinn síðasta landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Hallbera er algjör goðsögn í íslenskum fótbolta,“ sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í síðustu útgáfunni af EM Innkastinu í bili.

Hallbera tilkynnti það eftir síðasta leikinn á EM að skórnir væru að fara upp á hillu hjá henni eftir langan og farsælan feril.

Hún er fædd og uppalin á Akranesi og hóf því feril sinn með ÍA áður en hún samdi við Val í desember árið 2005. Hún spilaði 341 leik í deild- og bikar og skoraði 73 mörk með ÍA, Val og Breiðabliki.

Þessi öflugi vinstri bakvörður vann sjö Íslandsmeistaratitla, þar af sex með Val og einn með Breiðabliki. Þá vann hún bikarinn fjórum sinnum með Val og einu sinni með Blikum.

Hallbera spilaði 131 landsleik fyrir Ísland og skoraði 3 mörk en fyrsti landsleikur hennar kom gegn Póllandi á Algarve-mótinu í Portúgal í mars 2008.

„Alvöru helvítis vinstri löpp maður. Hún er með fáránlegan fjölda af mörkum í íslenskum keppnum verandi vinstri bakvörður. Það er sturlað,“ sagði Sæbjörn Þór Steinke.

„Íslandsmeistari, bikarmeistari, ferill í atvinnumennsku, 131 landsleikur... magnaður ferill hjá henni. Hún hefur verið ótrúlegur þjónn – ef svo má segja – fyrir íslenska landsliðið. Magnaður leikmaður,“ sagði Guðmundur.

Hver tekur við?
Hallbera hefur átt stöðu vinstri bakvarðar í landsliðinu síðustu ár. Það verður áhugavert að sjá það núna hver tekur við af henni og hvort einhver leikmaður muni eigna sér þessa stöðu eins og hún gerði.

„Við sáum hver verður vinstri bakvörður til framtíðar,“ sagði Sæbjörn og átti þar við Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur sem var að leika á sínu fyrsta stórmóti.

„Áslaug Munda er samt ekki náttúrulegur vinstri bakvörður,“ sagði Guðmundur. „Ég er samt að horfa á hana í þessa stöðu. Ef hún einbeitir sér að því að spila vinstri bakvörð þá getur hún leikið þá stöðu í þessu landsliði næstu 15 árin. Að sjá hana og Sveindísi Jane saman á vinstri vængnum væri mjög gaman.“

Erum að missa mikið með Hallberu
Það er ljóst að það er sárt fyrir liðið að missa Hallberu, og ekki bara innan vallar.

„Karakterinn er stórskemmtilegur. Hún er flippuð og gefur mikið af sér,“ sagði Sæbjörn.

„Ég held að landsliðið sé að missa mikið með að missa hana. Maður tók eftir því út í Þýskalandi að hún er einhver mesta keppnismanneskja sem þú finnur. Þú ert að missa mikið með henni.“

„Takk Hallbera,“ sagði Elvar Geir Magnússon og er svo sannarlega hægt að taka undir það. Ekki verður auðvelt að fylla í hennar skarð.
EM Innkastið - Markmiðið náðist ekki en þjóðin er stolt
Athugasemdir
banner
banner