Salah vill framlengja við Liverpool - Al-Nassr vill fá Kovacic - Man Utd og Newcastle enn með í baráttunni um Rabiot
banner
   sun 21. júlí 2024 00:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Auðunn rotaðist og var fluttur á sjúkrahús
Lengjudeildin
Auðunn í leiknum í dag.
Auðunn í leiknum í dag.
Mynd: Akureyri.net/Skapti Hallgrímsson
Auðunn Ingi Valtýsson, markvörður Þórs, missti meðvitund í skamma stund undir lok leiks Þórs og Þróttar í dag. Þórsarar voru að reyna finna jöfnunarmark og var Auðunn kominn hátt upp á völlinn sem aftastii varnarmaður.

Þróttarar áttu álitlega stungusendingu inn á vallarhelming Þórsara og sóknarmaður þeirra virtist í góðri stöðu; að sleppa í gegn við miðlínu. Einhverjir hefðu hörfað en Auðunn sýndi mikið hugrekki og fór í návígi við Kára Kristjánsson, leikmann Þróttar, komst í boltann en leikmennirnir skullu saman og lentu illa.

Auðunn lá á vellinum í nokkrar mínútur og hringt var á sjúkrahús. Rúmlega tíu mínútna stopp varð á leiknum. Í grein Akureyri.net kemur fram að saumuð hefðu verið fjögur spor í andlit Auðuns.

Lestu um leikinn: Þór 0 -  1 Þróttur R.

Auðuni var hjálpað á fætur en gekk svo inn í sjúkrabíl sem var kominn inn á Þórsvöll. Á leiðinni í bílinn klöppuðu áhorfendur á VÍS-vellinum, fegnir að sjá Auðun geta gengið óstuddur í bílinn.

Í stuttu samtali við Fótbolta.net í kvöld sagði Auðunn frá því að líðanin væri fín en hann væri þó með hausverk. Hann fór upp á sjúkrahús en er kominn til síns heima.

„Ég datt út í smá stund, áttaði mig ekki á því hvar ég var til að byrja með þegar ég fékk meðvitund. En svo púslaði ég þessu saman eftir nokkrar sekúndur," sagði Auðunn.

Hann var að spila sinn annan leik fyrir Þór í sumar. Hann varði mark liðsins gegn Aftureldingu í síðustu umferð og átti fantagóðan leik. Þróttarar unnu 0-1 útisigur í dag en það var ekkert sem Auðunn gat gert í marki Þróttara.

„Það var hræðilegt að sjá þetta. Mér sýndist Auðunn standa upp, ég vona að hann verði í góðu lagi, það er alltaf ógnvekjandi að sjá svona. Kári slapp allavega lifandi út úr þessu," sagði Sigurvin Ólafsson, þjáflari Þróttar, í viðtali eftir leik.
Athugasemdir
banner
banner
banner