Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 22. apríl 2020 16:15
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sprungin tuðra á Miðjarðarhafi
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Við leikslok í úrslitaleik Trapani og Piacenza þann 15. júní 2019.
Við leikslok í úrslitaleik Trapani og Piacenza þann 15. júní 2019.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Saltvinnsla á flatlendinu umhverfis höfnina í Trapani fer fram með aldagömlum aðferðum.
Saltvinnsla á flatlendinu umhverfis höfnina í Trapani fer fram með aldagömlum aðferðum.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Vallarstæði Stadio Polisportivo provinciale di Trapani er við rætur Erice fjalls.
Vallarstæði Stadio Polisportivo provinciale di Trapani er við rætur Erice fjalls.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Markaskorarinn M’Bala Nzola.
Markaskorarinn M’Bala Nzola.
Mynd: Getty Images
„Juventus, þið munuð deyja.” Skilaboðin á iðnaðarsvæðinu við höfnina í Marsala gætu ekki verið skýrari.
„Juventus, þið munuð deyja.” Skilaboðin á iðnaðarsvæðinu við höfnina í Marsala gætu ekki verið skýrari.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Við strandlengjuna í Marsala.
Við strandlengjuna í Marsala.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Útsýnið frá Valle dei Templi og yfir Agrigento í baksýn.
Útsýnið frá Valle dei Templi og yfir Agrigento í baksýn.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Tempio della Concordia í Valle dei Templi.
Tempio della Concordia í Valle dei Templi.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Sundsprettur í hafnargarðinum í Sýrakúsu.
Sundsprettur í hafnargarðinum í Sýrakúsu.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Mynd: Björn Már Ólafsson
Við Óperuhúsið Teatro Massimo Vittorio Emmanuele í Palermo.
Við Óperuhúsið Teatro Massimo Vittorio Emmanuele í Palermo.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Skrifstofur Palermo voru eins lokaðar og hugsast getur eftir gjaldþrotið skömmu áður.
Skrifstofur Palermo voru eins lokaðar og hugsast getur eftir gjaldþrotið skömmu áður.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Stadio Renzo Barbera er heimavöllur Palermo og tekur um 36 þúsund áhorfendur.
Stadio Renzo Barbera er heimavöllur Palermo og tekur um 36 þúsund áhorfendur.
Mynd: Björn Már Ólafsson
Pistillinn birtist fyrst á romur.is

Sumarið 2019 ferðaðist ég með kærustunni minni um Sikiley. Ítölsku eyjuna sem líkist helst sprunginni tuðru sem stígvélalaga landið hefur sparkað út á Miðjarðarhaf. Hringferðin hófst og endaði í Palermo – borginni sem í yfir 100 ár hefur hýst lang besta knattspyrnufélag eyjunnar.

En þegar hringferðinni okkar lauk þurfti bæta nýjum kafla við sögubókina um sikileyska knattspyrnu. Því eftir einn hörku knattspyrnuleik í 100 km fjarlægð frá Palermo annars vegar og harða rimmu fyrir dómstólum eyjunnar hins vegar, varð niðurstaðan sú að Palermo var fært niður á botn ítalska deildarkerfisins líkt og hinir knattspyrnurisar eyjunnar, Messina og Catania, á meðan ólíkindafélagið Trapani á tveimur viðburðaríkum vikum varð óvænt fánaberi rauðgula Sikileyjarfánans í ítalska toppfótboltanum.

„Auðvitað verður hann aldrei seldur!“
Fyrsta daginn okkar í Palermo heimsóttum við Palermo Store sem selur varning félagsins. Tilhugsunin að eiga bleiku treyju félagsins hefur lengi kitlað mig. Verslunin var nútímaleg með fallegu kaffihúsi á neðri hæðinni skreytt árituðum treyjum frá goðsögnum félagsins. Það eru ekki mörg knattspyrnufélög sem leika í bleikum treyjum og eru þær því vinsæl söluvara, ekki bara á meðal stuðningsmanna félagsins heldur líka ferðamanna og almennra áhugamanna.

Sögusagnir höfðu hringsólað í fréttum vikurnar áður um yfirvofandi gjaldþrot félagsins en starfsmaður verslunarinnar sannfærði mig með öflugum handahreyfingum um að allt væri í himnalagi. Ég ákvað því að slá til og keypti mér treyju merkta fyrirliðanum, Norður-Makedónanum Ilija Nestorovski, en til öryggis spurði ég hvort það væri nokkur hætta á að hann yrði seldur um sumarið. Við þetta fauk talsvert í starfsmanninn og hann útskýrði fyrir mér að hann væri fyrirliði liðsins – „Auðvitað verður hann ekki seldur!”

Þríhöfða þursarnir
Nokkrum dögum síðar, nánar tiltekið að kvöldi til þann 15. júní 2019 var umferðarljósunum í sikileyska strandbænum Trapani kippt úr sambandi. Það breytti svo sem litlu. Umferðin hafði ekki haggast klukkustundum saman nema þá vespurnar sem brunuðu framhjá kyrrstæðu bílunum, og voru gjarnan tveir eða þrír farþegar á hverri vespu. Hver vespa var því eins og þríhöfða fagnandi þurs. Einn ökumaður, annar með fána og sá þriðji með háværan þokulúður. Ástandið minnti mig á fréttamyndir á ríkissjónvarpinu úr æsku minni á tíunda áratugnum. Fólk á götum úti að fagna niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna, föllnum einræðisherrum eða stríðslokum. Út um allt gullu bílflautur og fagnaðaróp og á svölum fjölbýlishúsanna við Via Salvatore Caruso sungu íbúar glaða söngva í dúr, öfugt við moll tóna svalasöngvaranna á kórónatímunum.

Tæpum tveimur klukkustundum áður hafði ég ruðst inn á gervigrasið á Stadio Provinciale di Trapani ásamt fleiri þúsund stuðningsmönnum þegar lið Trapani fagnaði sigri á Piacenza og komst þar með upp í ítölsku B-deildina eftir ævintýralegt umspil í því mýrlendi sem C-deildarkeppnin er.

Það var fyrir algjöra tilviljun sem ég og kærasta mín enduðum á úrslitaleiknum í umspili Serie-C sumarið 2019. Hvort kærasta mín trúir þeirri tilviljun er síðan annað mál enda hef ég dregið hana á misáhugaverða knattspyrnuleiki um gjörvalla Ítalíu í nokkur ár. En ferðalag til Sikileyjar seinni partinn í júní væri undir eðlilegum kringumstæðum fótboltalaust ferðalag. Stóru deildarkeppnunum í Evrópu lýkur yfirleitt í lok maí, nema stöku umspilsleikur á stangli hér og þar. En C-deildin á Ítalíu lýtur ekki neinum eðlilegum lögmálum. Deildinni er skipt upp í þrjá riðla. Efsta liðið í hverjum riðli kemst upp um deild en 9 næstu liðin í hverjum riðli er svo ýtt út í 28 liða útsláttarkeppni sem hefst um miðjan maí. Mánuði síðar stendur svo eitt félag uppi með pálmann í höndunum. Stigataflan sem sýnir stöðuna í riðlunum í ítölsku C-deildinni líkist rassvasabókhaldi hjá vafasömu fyrirtæki – það er margt sem þarfnast skýringa og flest liðin eru stjörnumerkt*. Stigafrádráttur vegna bókhaldsóreglu er regla frekar en undantekning og er þá ónefndur stigafrádráttur vegna uppgerðra leikja og veðmálasvindls.

En vorið 2019 mátti skynja eitthvað stórkostegt í loftinu í hafnarbænum Trapani, um 100 kílómetra vestur af Palermo. Rekja má sögu borgarinnar um 2600 ár aftur í tímann og er hún fallega staðsett við rætur Erice fjalls. Kláfur ferjar ferðamenn auðveldlega upp í gamla bæinn á toppi Erice fjalls og á flatlendinu umhverfis höfnina í borginni eru sjávarsalt unnið með mörg hundruð ára gamalli aðferð. Bærinn er sannarlega hafnarbær og fjárhagslegi bakhjarl knattspyrnufélagsins var á þessum tíma Vittorio Morace, eigandi ferjufyrirtækisins Liberty Lines sem flytur ferðamenn til Ustica, Lampedusa og annarra eyja umhverfis Sikiley.

Eftir meðal annars stórkostlegan sigur á nágrönnum sínum í Catania í undanúrslitunum, komst Trapani í úrslit umspilsins gegn Piacenza. Piacenza er frá Norður-Ítalíu og á að baki nokkur tímabil í efstu deild þótt félagið megi muna fífil sinn fegurri. Norðanmenn voru talsvert sigurstranglegri áður en einvígið hófst og héraðsblöðin frá Trapani hikuðu ekki við að grípa til Biblíunnar í leit að myndlíkingum. Því þetta var slagur Davíðs gegn Golíats eins og forsíðurnar á leikdag sögðu. Sofandi hafnarbærinn frá Sikiley sem aðeins hafði einu sinni áður í sögunni leikið í næstefstu deild, gegn forna efnahagsstórveldinu og borgríkinu Piacenza með sína stoltu sögu. Piacenza var eitt sinn höfuðstaður hertogadæmisins Parma áður en höfuðstaður hertogadæmisins var, eðlilega myndu sumir segja, fluttur til einmitt Parma.

Fyrri leik liðanna í úrslitaeinvíginu lauk 0:0 í Piacenza og Trapani því í dauðafæri á að komast í deild hinna næst bestu.

Slagsmál í stúkunni og steinsofandi sjúkrabíll
Við fengum miða rétt fyrir neðan VIP svæðið í aðalstúku vallarins. VIP svæði var þó ekki annað en lítill borði sem strengdur hafði verið utan um nokkur venjuleg sæti í miðri stúkunni. Völlurinn er örlítið minni en Laugardalsvöllur, en stúkurnar skemmtilegri og stemningin sömuleiðis. Á vellinum var líka ríflegt rútufylli af stuðningsmönnum Piacenza sem er aðdáunarvert í ljósi þess að rútuferð frá Piacenza til Trapani tekur 16 klukkustundir. Án pissustopps. Miðað við útstáelsið á stuðningsmönnunum á vellinum höfðu pissustoppinn verið ansi mörg.

Leikurinn hófst ekki áður en að slagsmál höfðu brotist út á VIP svæðinu. Nokkrir leikmenn Piacenza tóku út leikbann og sátu því í stúkunni. Þeir rákust þarna utan í það sem hafa verið heiðursborgar heimamanna og eftir nokkurn skarkala, stympingar og ögrandi handabendingar komst aftur ró á mannskapinn. Stuðningsmenn heimamanna sem staðsettir voru við norðanvert markið – í „curva nord” – kveiktu í blysunum sínum og leikurinn gat hafist.

Leikurinn var taugatrekkjandi fyrir mig þrátt fyrir að ég hafði engar raunverulegar taugar til Trapani. Þetta var bara sú tegund af knattspyrnuleik. Trapani réði lögum og lofum í 90 mínútur en allir í stúkunni sátu með þá ónotatilfinningu innanbrjósts að Piacenza myndi nú örugglega ná að skemma gleðina. Sérstaklega hafði ég áhyggjur af framherja Piacenza. Slánalegur og húðflúraður frá toppi til táar, Argentínumaður með ítalskt vegabréf auðvitað, sinnti hann ekki einni sekúndu af varnarvinnu allan leikinn. Hann mætti út á völlinn með vel yddaða olnboga, traðkaði á tær og reif kjaft við hvern einasta mann á vellinum, á einum tímapunkti er ég nokkuð viss um að hann hafi verið að rífa kjaft við mig persónulega. Alltaf sá ég fyrir mér að hann myndi spilla gleðinni fyrir heimamönnum, svo ógnvekjandi var hollningin á honum. En mér skjátlaðist heppilega, því hann fékk litla aðstoð frá liðsfélögum sínum í sóknarleiknum og svo reyndist hann endemis getulaus fyrir framan markið. Mikið gelt, ekkert bit.

Trapani komst svo yfir undir lok fyrri hálfleiksins og tíu þúsund manns gátu fagnað af ofsafenginni innlifun, sönglað hið úrfellingum prýdda nafn markaskorarans M’Bala Nzola og síðan andað ögn léttar.

Seinni hálfleikurinn varð ein löng bið eftir að dómarinn myndi flauta leikinn af. Heimamenn stjórnuðu áfram ferðinni. Piacenza gekk illa að skapa sér færi og lítið var að frétta þar til um miðbik hálfleiksins þegar tveir leikmenn Piacenza skullu harkalega saman í skallaeinvígi. Það mátti heyra saumnál detta og læknar liðanna ruddust inn á völlinn á meðan áhorfendur stóðu á öndinni. Eftir skamma stund fóru áhorfendur að ókyrrast. Kurrið beindist að að sjúkrabílnum sem stóð við enda vallarins. Bíllinn var jafn hreyfingarlaus og leikmennirnir tveir sem lágu á vellinum. Allt í einu birtist svo bílstjóri sjúkrabílsins með girnilega samloku í höndunum (með hráskinku og osti sýndist mér) en hann hafði gert sér ferð í sjoppuna rétt áður en samstuðið varð. Um leið og hann steig inn á völlinn aftur með lokuna í lúkunum fann hann fyrir 20 þúsund stingandi augum. Hann fleygði samlokunni frá sér, reif upp húsvarðarlyklakyppu og reyndi skjálfhentur að finna rétta lykilin til að koma bílnum í gang. Hann brunaði síðan inn á völlinn, á meðan fúkyrðaflaumur og flautukonsert fylltu sjávarblandað kvöldloftið á vellinum, og sótti slasaða leikmanninn.

Við þetta datt botninn endanlega úr spilamennsku Piacenza. Trapani hélt hreinu allt einvígið með glæsilega útfærðri Sikileyjarvörn og vann að lokum nokkuð öruggan 2:0 sigur. Þjálfara liðsins, gamla Genoa og Chievo Verona leikmanninum Vincenzo Italiano, hafði tekist hið ómögulega og fagnaði hann vel og innilega með stuðningsmönnum liðsins. Það átti eftir að reynast kveðjustund því nokkrum dögum síðar var Italiano kynntur sem þjálfari Spezia, þar sem hann í dag stýrir Sveini Aroni Guðjohnsen og þykir með efnilegri þjálfurum deildarinnar. Viðurkenningarskjöldur var afhentur leikmönnum Trapani og við stuðningsmennirnir ruddumst inná völlinn og fögnuðum inn í nóttina.

Höfn Guðs og bragðvond vín
Eins og kom fram að ofan eru þrjú knattspyrnufélög á Sikiley sem eiga sér einhverja sögu í Serie-A, svo telja megi. Palermo, Messina og Catania, frá samnefndum borgum á Norður- og Austurströnd eyjunnar.

Hringferð okkar sem hófst í Trapani lá fyrst suður eftir ströndinni, á svæði þar sem knattspyrnan hefur aldrei náð sérstaklega sterkum tökum í menningunni.

Fyrst heimsóttum við Marsala – borgina með arabíska nafnið Höfn Guðs. Félagið Marsala Calcio hefur aldrei komist upp úr C-deildinni. Þekktast er félagið sennilega fyrir að hafa verið fyrsti áfangastaður Patrice Evra í atvinnumennsku, þar sem Frakkinn knái lék sem framherji. Þá sleit heimsmeistarinn Marco Materazzi einnig unglingsskóm sínum á Stadio Antonino Lombardo Angotta í Marsala, án þess þó að skilja annað eftir sig en för í grasið eftir skriðtæklingar og tuddaskap.

Í Marsala var lítið að gerast eftirmiðdaginn sem við skoðuðum borgina. Engir ferðamenn á ferð og aðeins nokkrir strandbarir opnir sem seldu lítið annað en prufusmakk af helstu útflutningsvöru borgarinnar – Marsalavíninu. Við keyptum okkur sitt hvort glasið og í kjölfarið annað glas af gosi til að skoða bragðið úr munninum.

Það verður að segjast eins og er, að þegar spurt er um Marsala í pub-quizi er líklegra að spurningin fjalli um Marsalavínin heldur en knattspyrnufélagið. Marsalavínin geta huggað sig við að þau eru sögufræg þótt bragðið sé vont. Knattspyrnan í borginni er hvorki bragðgóð né sögufræg.

Ferðamannastaðir heimamanna
Fallega skreyttu bæirnir á Suðurströnd Sikileyjar eru sjávarþorp í bland við gamlar grískar borgir sem allar eiga það sameiginlegt að eiga léleg knattspyrnulið. Bæir á borð við Sciacca og Mazara del Vallo eru vinsælir sumarfrísáfangastaðir á meðal Ítala og á meðan dvöl okkar í Sciacca stóð urðum við varla vör við ferðamenn frá öðrum löndum en Ítalíu og Frakklandi, auk stöku Ítaló-Ameríkönum í menningarreisu ættjörðina með ítalskan hreim eins og Brad Pitt í Inglourious Basterds. Bonjohrno.

En hvorki Sciacca Calcio né Mazara Calcio hafa nokkurn tímann komist uppúr áhugamennsku í lægri deildum Sikileyjar heldur fljóta þau um í sikileysku héraðsdeildunum í hæfilegri meðalmennsku.

Fimm grísk hof og fjögur gjaldþrot
Næsta borg meðfram Suðurströndinni er öllu þekktari áfangastaður ferðamanna frá öllum heimshornum. Agrigento er borgin sem geymir hvorki meira né minna en fimm grísk hof og heimamenn fullyrtu stoltir við okkur að þeir sem vilja skoða grískar fornminjar eiga alls ekki að heimsækja Grikkland heldur Agrigento sem kallast einnig Citta di Templi – Borg hofanna.

Borgin státar ekki bara af fornminjum heldur einnig arfaslöku knattspyrnufélagi sem ber forngríska heiti borgarinnar – Akragas 2018. Þetta nútímalega nafn undirstrikar hörmungar félagsins en það var stofnað á grunni fyrri félags eftir enn eitt gjaldþrotið árið 2018 og leikur nú í áhugamannadeild á Sikiley. Alls eru gjaldþrotin í sögunni orðin fjögur og eflaust verða þau fleiri. Besta árangur félagsins þarf að rekja allt aftur til fjórða áratugs síðustu aldar þegar það lék í C-deildinni. Frægasti leikmaður og þjálfari liðsins er Sikileyjargoðsögnin Carmelo di Bella sem hefur það á ferilskránni að hafa þjálfað næstum öll knattspyrnufélögin á eyjunni, þar á meðal Marsala, Igea Virtus, Akragas, Catania og Palermo. Tveimur þessara liða kom hann upp í efstu deild en eins og glöggir lesendur gera sér grein fyrir var það hvorki Marsala né Akragas.

Sænsku sjómennirnir
Gjaldþrot einkenna líka nágranna þeirra í Licata sem geta þó verið ögn stoltari af sínu félagi. Félagið Licata Calcio, sem spilar í sænsku fánalitunum eftir að sænskir sjómenn stofnuðu félagið árið 1931 komst upp í B-deildina árið 1988 og urðu tímabilin þar tvö. Upp úr stendur bikarleikur árið 1988 þegar liðið mætti risunum í AC Milan á La Scala knattspyrnunnar, San Siro leikvangnum í Mílanó. Þetta var á þeim tíma þegar hetjur á borð við Ruud Gullit og Marco Van Basten riðu um Langbarðahéröð undir herstjórn Arrigos Sacchis. Síðan þá hefur leiðin fyrir Licata Calcio aðeins legið niður á við og í dag er það ítalska D-deildin sem hýsir hina gulbláu kappa.

Dómaragoðsögnin frá Sýrakúsu
Þegar ekið er meðfram Suðurströndinni frá Licata er endastöðin hin æðifagra Sýrakúsa. Í mörg hundruð ár var borgin ein sú hernaðarlega mikilvægasta við Miðjarðarhafið. Þá er borgin fæðingarstaður stærð- og verkfræðingsins Arkimedesar, Heilögu Lúcíu og dvalarstaður Páls Postula, ef marka má biblíuna. En þrátt fyrir að uppruna æðri máttarvalda og náttúruvísinda megi rekja til hafnarborgarinnar, þá hefur knattspyrnan í borginni hvorki guðlegt né vísindalegt yfirbragð.

Félagið á að vísu að baki nokkur tímabil í B-deildinni en það er segir talsvert um skortinn á gæðunum innan vallar að þekktasti knattspyrnusonur borgarinnar var alls ekki leikmaður heldur milliríkjadómarinn Concetto Lo Bello sem á sínum tíma var talinn einn besti dómari heims. Lo Bello dæmdi úrslitaleik Evrópukeppninnar 1968 á milli Manchester United og Benfica, og hann átti að dæma úrslitaleik Heimsmeistaramótsins árið 1970. Lo Bello var þá sennilega eini Ítalinn sem fagnaði ekki þegar landslið hans tók sig til og fór alla leið í úrslitaleikinn enda þýddi það að hann fékk ekki að dæma leikinn.

Lo Bello skartaði þar að auki mjórri og smekklegri mottu, í stíl við fágaðan og frambærilegan persónuleika hans. Eftir að ferlinum lauk sneri hann sér að stjórnmálum og gegndi hann um tíma embætti íþróttamálaráðherra á Ítalíu áður en hann varð borgarstjóri heimabæjarins Sýrakúsu í nokkra mánuði.

Ég má til með að nefna það í framhjáhlaupi að ef Syracusa kæmist nú upp í B-deildina gætum við fengið að sjá félagið mæta nágrönnum sínum í Crotone frá borginni Kroton rétt handan Messina sundsins. Stuðningsmenn Crotone er nefndir „i pitagorici” í höfuðið á frægasta íbúa Crotone, stærðfræðingnum Pýþagorasi. Þá yrði útkljáð á knattspyrnuvellinum í eitt skipti fyrir öll hvort vegur þyngra í sögunni, þríhyrningar Pýþagorasar eða lögmál Arkimedesar.

Argentínska nýlendan Catania
Í norðurátt frá Sýrakúsu, um miðja Austurströnd Sikileyjar má finna eina af þremur stórborgum eyjunnar og félag með skemmtilega sögu í efstu deild Ítalíu. Catania er suðupottur allra þeirra menningarheima sem lagt hafa undir sig Sikiley í gegnum aldirnar. Normannar, Rómverjar, múslimar, barbarar, Grikkir og Spánverjar, allir þessir hópar hafa skilið eftir sig spor á eyjunni sem enn gætir í dag, hvort sem það er í tungumáli, matargerð eða byggingarlist.

Það var því viðeigandi að það hafi verið fyrir tilstilli fjölmenningar og erlendra áhrifa sem knattspyrnufélagið Catania byggði upp stórveldistíma sinn á árunum 2006 til 2014. Argentínumenn voru fyrirferðamestir að ógleymdum hinun hárprúða skaphundi Juan Manuel Vargas frá Perú sem úr sinni vinstri bakvarðarstöðu setti óopinbert heimsmet í skottilraunum af löngu færi, heimsmet sem stendur enn óhaggað.

Árið 2010 voru alls 12 argentínskir leikmenn á launaskrá hjá félaginu og Diego Simeone, hinn margverðlaunaði og nú launahæsti þjálfari heims hjá spænska risanum Atletico Madrid, stjórnaði liðinu um skeið. Leikmenn á borð við Sergio Almiron, Mariano Izgo, Lucas Castro og Maxi Lopez áttu allir góða ferla í efstu deild á Ítalíu og stjarna liðsins var Papu Gomez, agnarsmái töframaðurinn sem stýrði sóknarleiknum af miklum myndarleik. Papu Gomez er að enn í dag sem fyrirliði Atalanta frá Bergamo á Norður Ítalíu, eins langt frá Catania og hugsast getur.

Öll Catania dansaði argentínskan tangó þessi ár. Liðið stríddi sífellt stórveldunum í norðri á heimavelli og náði best 8. sætinu í deildinni – mikið afrek fyrir félag með afar aðþrengdan fjárhag. Félagið féll árið 2014 niður í B-deildina og ári síðar var félagið dæmt niður um tvær deildir eftir að forseti félagsins viðurkenndi að hafa þegið fé fyrir að tapa leik í deildarkeppni árið áður. Í dag svamlar Catania um í þeirri hengimýri sem C-deildin er og er ekkert nema skugginn af sjálfu sér en áhugamenn um ítalska boltann munu lengi minnast argentínska tímabilsins og fjörinu sem því fylgdi.

Markahrókurinn frá Lipari
Hraðbrautin í norðurátt frá Catania liggur framhjá Taormina þar sem skáldskapargyðjan hefur hreiðrað um sig um aldaraðir. En við ætlum ekki á slóðir Nóbelskáldsins eða Johan W. Goethe í Taormina í þetta sinn heldur munum við hlykkjast áfram meðfram ströndinni í átt að hafnarborginni Messina, sem stendur við samnefnt sund. Hinum megin við sundið, í aðeins um örfárra kílómetra fjarlægð á sjálfu fastlandinu er borgin Reggio di Calabria. Lengi hefur sú hugmynd verið uppi að brúa sundið með gríðarstórri hengibrú og hefur sú hugmynd jafnvel ratað inn á fjárlög ítalska ríkisins en vegna gríðarlegs kostnaðar hefur hún horfið þaðan jafnskjótt og hún birtist. Í stað þess er það ferja sem tengir saman Sikiley og Appeníuskagann. Stígvélið og fótboltann. Sama ferja flytur lestarvagnana yfir sundið en í stað þess að farþegar yfirgefi lestarvagninn við höfnina og stígi upp í lest hinum megin við sundið, er lestinni ekið inn í ferjuna á teinum og aftur út hinum megin. Óþarfa flækjustig, vinnuafl og kostnaður fylgir þessu auðvitað, en slík óútskýranleg innviðauppbygging er sérgrein þarna syðra.

Knattspyrnufélagið Messina á að baki alls fimm tímabil í efstu deild, síðustu þrjú þeirra á árunum 2004-2007. Það voru skrautleg tímabil, ekki bara fyrir þá gulrauðu, heldur alla knattspyrnuna í landinu. Á fyrsta tímabilinu var þeim spáð falli, en með lúmskum leikmannahópi sem samanstóð aðallega af ítölskum héraðshetjum úr neðri deildum tókst liðinu að lokum að enda í 7. sæti, aðeins stigi frá Evrópusæti. Árið 2005 voru svo fyrstu leikmennirnir í sögu Messina valdir í ítalska landsliðshópinn, bakvörðurinn öruggi Alessandro Parisi og miðjumaðurinn Carmine Coppola. Árið eftir endaði félagið í fallsæti og í eðlilegu árferði hefði félagið því leikið í B-deildinni árið eftir. En árið 2006 var ekkert eðlilegt ár í ítalska boltanum. Skömmu eftir að Fabio Cannavaro lyfti heimsmeistaratitlinum í Berlín í júlí, voru deildarmeistarar Juventus dæmdir niður um deild, og við það fékk Messina að halda sæti sínu í efstu deild.

Þriðja tímabilinu í efstu deild lauk síðan með fallsæti líkt og árið áður. En tímabilið fer þó í sögubækurnar þar sem hinn stóri og stæðilegi heimamaður Christian Riganò hlaut bronsskóinn eftir að hafa þrusað knettinum í mark eins og andsetinn maður allt tímabilið. Í 19 skipti þurfti markmaður andstæðinganna að sækja knöttinn úr marki sínu og oftast notaði Riganò síðhært höfuðið við að koma boltanum yfir línuna.

Það er kanski ofsögum sagt að Riganò sé heimamaður í Messina þótt stuðningsmenn félagsins haldi því fram. Viðurnefni hans er nefnilega „il bomber di Lipari” – markahrókurinn frá Lipari, sem er pínulítil eyja norður af Sikiley. 12 þúsund manna eyja utan af eyju þar sem íbúafjöldinn nær tvöfaldast með ferðamannastraumnum á hverju sumri. Riganò lék fyrst með litlu félagi á Lipari en var fljótur að færa sig á fastlandið til Messina þegar hæfileikar hans fóru að gera vart við sig. Hann sló hins vegar ekki í gegn fyrr en með félaginu Taranto frá Pugliahéraði í D-deildinni, á þeim tíma er hann vann ennþá fyrir sér meðfram knattspyrnunni sem múrari. Þaðan var hann svo seldur til Fiorentina árið 2002 eftir að Fiorentina varð gjaldþrota og stofnað að nýju í ítölsku C-deildinni. Riganò var mikilvægur hlekkur í að koma Fiorentina aftur upp í deild hinna bestu. Á Artemio Franchi leikvangnum í Flórens má enn í dag stundum sjá glitta í borða með áletruninni „Dio perdona, RigaNo” – „Guð getur fyrirgefið en ekki Riganò”. Því markahrókurinn frá Lipari fyrirgaf varnarmönnum engin mistök heldur refsaði grimmilega með markanefi sínu. Þessi síðhærði og síðar meir íturvaxni framherji lék sinn fyrsta leik í A-deildinni þrítugur að aldri og var besti leikmaður Messina tímabilið 2006/2007. Í kjölfar falls Messina undir lok tímabilsins var Riganò svo seldur til Levante í spænsku La Liga, en markatöfarnir voru uppurnir, og eftir að hann hætti að geta kreist fleiri mörk upp úr skónum sínun enduðu þeir uppi í hillu örfáum árum síðar.

Óhætt er að segja að Christian Riganò er besti leikmaðurinn sem Lipari hefur nokkurn tímann getið af sér og minningin um hann er minningin stuðningsmanna Messina um síðasta tímabil þeirra í deild hinna bestu.

Listin að snæða eistu í morgunmat og setja félag í gjaldþrot fyrir kvöldmat
Hringferð okkar um Sikiley var lokið. Eftir stóð aðeins sólarhringur í Palermo sem nýta átti til að skoða óperuna sem svo heppilega vildi til að sýndi Pagliacci þetta sama kvöld. En dramatíkin og trúðslætin voru jafnvel enn meiri í dómstólum og í höfuðstöðvum knattspyrnufélagsins Palermo á sama tíma.

Palermo er án efa þekktasta knattspyrnufélagið frá Sikiley sem leikur í sínum einkennandi bleiku búningum. Alls hafa tímabilin í efstu deild orðið 29 talsins. Besta árangri sínum náði félagið árið 2005 þegar það endaði í 6. sæti og fékk þar með þátttökurétt í Evrópukeppni. Það var á þeim tíma þegar viðskiptamaðurinn Maurizio Zamparini átti félagið. Skapstóri maðurinn sem hótaði eitt sinn eigin leikmönnum að hann myndi skera af þeim eistum og snæða þau í morgunmat. Zamparini lyfti félaginu upp á stjörnuhimininn með sérvisku sinni og einstöku nefi fyrir efnilegum leikmönnum sem hann keypti ódýrt og seldi dýrt. En bókhaldsbrellur hans og sérviska urðu félaginu að lokum að falli, örlagaríka nótt sumarið 2019. Í nokkur ár hafði Zamparini reynt að selja félagið. Ekki skorti áhugaverða kaupendur enda félagið frá stórri borg, með stóran leikvang og sterka hefð. En hugsanlegir kaupendur hurfu eins og dögg fyrir sólu um leið og niðurstöður lágu fyrir úr áreiðanleikakönnunum. Því það voru engir peningar í félaginu.

Í mörg ár hafði félagið keypt leikmenn ódýrt og selt dýrt. Paolo Dybala, Edison Cavani, Franco Vazques, Andrea Barzagli, Fabio Grosso, Luca Toni. Listinn er langur af heimsmeisturum og öðrum markahrókum sem hafa gert garðinn frægan í stærstu deildum Evrópu á undanförnum áratug. En alltaf virtist kaupverðið enda annars staðar en í bókum félagsins.

Öllu var snúið á haus. Palermo var úrskurðað gjaldþrota og þurfti að byrja aftur á botni ítölsku deildarkeppninnar. Norður-Makedóninn, fyrirliðinn og markahrókurinn Ilija Nestorovski var seldur til Udinese og treyjan sem ég hafði keypt mér tveimur vikum áður var úrelt áður en tímabilið hófst.

Trapani er orðin helsta von knattspyrnunnar á Sikiley og ekki er útlitið gott þar enda félagið í fallsæti þegar hlé var gert vegna Covid-19 veirunnar. En hvað ætli sé að frétta af starfsmanni Palermo Store sem seldi mér Palermo treyjuna og fullvissaði mig um að allt væri í himnalagi tveimur vikum áður? Líklegast er hann brosandi út að eyrum sem áhorfandi á Renzo Barbera leikvangnum enda hefur áhorfendafjöldi Palermo ekki verið meiri í áratug. Stuðningsmenn standa með félaginu á erfiðum tímum og eru staðráðnir í að koma því aftur upp í atvinnudeildirnar.

Við sem þekkjum söguna vitum að Palermo verður komið aftur í efstu deild innan skamms. Og velgengni Trapani er aðeins stundargaman sem mun enda með gjaldþroti innan fárra ára. Slík er hringrás knattspyrnunnar á Sikiley:

Skyndilegt ris

Blússandi sóknarbolti

Gjaldþrot

Nýtt upphaf

Da capo

Athugasemdir
banner
banner
banner